Líkurnar á því að franski landsliðsmaðurinn í fótbolta, Paul Pogba, framlengi samning sinn við Manchester United eru taldar litlar en þetta kemur fram í frétt Skysports um samningsviðræður miðvallarleikmannsins við enska félagið.

Pogba á eitt ár eftir af samningi sínum við Manchester United en hann getur þar af leiðandi samið við félag utan Englands í upphafi næsta árs.

Franska félagið PSG er talið líklegast til þess að klófesta Pogba ef viðræður hans við Manchester United renna út í sandinn. Fram kemur í frétt Skysports að Pogba hafi hafnað síðasta samningstilboði Manchester United.

Þessi 28 ára gamli leikmaður hefur verið þráfaldlega orðaður við Real Madrid en talið er að spænska félagið muni ekki blanda sér í baráttuna um hann á þessum tímapunkti.

Manchester United, sem kynnti Jadon Sancho til leiks sem nýjan leikmann félagsins í dag, eru sagðir hafa augastað á Eduardo Camavinga, leikmanni Rennes og Leon Goretzka, sem spilar fyrir Bayern München, sem mögulegum eftirmönnum Pogba fari svo að hann fari.

Forráðamenn Manchester United eru svo komnir langt með að tryggja sér þjónustu franska landsliðsmiðvarðarins Raphael Varane sem er á mála hjá Real Madrid samkvæmt enskum fjölmiðlum.