Heitt er undir Marco Silva knattspyrnustjóra Everton en dramatíkst tap liðsins gegn Leicester City í 14. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í gær þýðir að liðið er tveimur stigum frá fallsvæði deildairnnar.

Silva var mættur á æfingasvæði Everton í morgun og hans er vænst á fjölmiðlafund á morgun. Enskir fjölmiðlar telja að Silva muni stýra Everton þegar liðið sækir Liverpool heim í nágrannaslag á miðvikudagskvöldið kemur.

Everton hefur 14 stig eftir jafn marga leiki í ensku úrvalsdeildinni en liðið situr í 17. sæti deildarinnar tveimur stigum á undan Southampton.

Tapið gegn Leicester City í gær var það áttunda í deildinni á yfirstandandi leiktíð hjá Everton en liðið hefur haft betur í fjórum leikjum og gert tvö jafntefli í vetur.