Raddir þeirra stjórnmálamanna sem vilja sniðganga Vetrarólympíuleikana í Peking árið 2022, bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi verða sífellt háværari. Er þá einkum borið við mannréttindabrotum Kínverja á Úígúr-múslimum í vesturhluta landsins, sem koma æ betur upp á yfirborðið.

Samkvæmt heimildum dagblaðsins The Sun, frá háttsettum ráðherra í ríkisstjórn Boris Johnson, er sniðganga nú rædd á meðal ráðherranna. Samtalið er þó ekki á þá leið að Bretar sendi ekki íþróttafólk á mótið, heldur að opinberir fulltrúar, stjórnmálamenn og fólk úr konungsfjölskyldunni sniðgangi leikana. „Við þurfum að taka nokkur vandræðaleg samtöl um þetta,“ sagði ráðherrann, en að ekkert væri ákveðið á þessari stundu.

Meðferð Kínverja á Úígúrum er ekki eina ástæðan. Bretar hafa staðið þétt við hlið Bandaríkjamanna í viðskiptastríðinu við Kínverja og meðal annars bannað Huawei-netbeina. Deilur um upptök og ábyrgð á COVID-19 faraldrinum og framkoma Kínverja gagnvart íbúum Hong Kong spila einnig rullu.

Ian Duncan Smith, fyrrverandi formaður Íhaldsflokksins og einn af dyggustu stuðningsmönnum Johnsons, er enn harðari í afstöðunni til Ólympíuleikanna. „Kína er árásargjarnt og óumburðarlynt einræðisríki. Ég get ekki séð að nokkur breskur ríkisborgari með nokkra sjálfsvirðingu geti farið þangað til að styðja við þessa ógnarstjórn,“ segir hann. Hefur hann hvatt ríkisstjórnina til þess að þrýsta á Alþjóðaólympíunefndina um að breyta vettvangi leikanna. Vísaði hann meðal annars til brota á samkomulagi Breta og Kínverja um afhendingu Hong Kong árið 1997.

Í Bandaríkjunum hefur þingmaðurinn Rick Scott barist harðast fyrir því að Vetrarólympíuleikarnir verði færðir, eða sniðgengnir af Bandaríkjamönnum. Hann situr í öldungadeildinni fyrir Repúblikana í Flórída og hefur lengi verið einn af dyggustu stuðningsmönnum forsetans Donalds Trump.

„Peking er að fremja þjóðarmorð á Úígúrum vegna trúar þeirra og brýtur mannréttindi á íbúum Hong Kong. Heimurinn verður að standa sameinaður gegn þessu hryllilega óréttlæti. Þetta snýst ekki um stjórnmál eða sniðgöngu. Þetta snýst um mannréttindi,“ sagði Scott í lok júlí.

Engar ákvarðanir um að sniðganga leikana hafa verið teknar í Bandaríkjunum en raddir sem mæla með því verða háværari. Einnig í Kanada, sem er ein af sigursælustu þjóðum leikanna frá upphafi.

Í ávarpi í júlí varaði Thomas Bach, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar, við sniðgöngu og sagði hana engu skila heldur aðeins skaða íþróttirnar. „Í hugum sumra eru draugar fortíðar að sýna sitt ljóta fés á ný. Sniðganga og mismunun vegna stjórnmála heima fyrir eða þjóðernis er orðin raunveruleg hætta á ný,“ sagði Bach. Vísaði hann meðal annars til þess að 40 ár væru frá sniðgöngunni á Sumarólympíuleikunum í Moskvu, sem hefði engu skilað. Þeir sem töluðu fyrir sniðgöngu nú væru staðráðnir í að læra ekkert af sögunni. „Sniðganga gengur gegn Ólympíuandanum.“