Breskur lögreglumaður sem er staddur á HM í knattspyrnu karla í Katar segir að það hafi enginn Englendingur verið handtekinn í Katar og segir að takmarkað aðgengi að vímuefnum eigi þar stóran þátt.

„Það er augljóst að erfiðleikastigið við að komast í áfengi og kókaín hefur haft jákvæð áhrif á stuðningsmenn okkar. Það hafa engin vandamál komið upp. Skemmtistaðirnir sem aðdáendur hafa sótt eru himinlifandi og það hefur ekki enn þurft að vísa neinum út,“ sagði lögreglustjórinn Steve Graham í samtali við Daily Mail.

Breska lögreglan er með sérstaka deild sem snýr að knattspyrnuleikjum (e. UK Football Policing Unit) sem er með fulltrúa í Katar.

Að þeirra sögn þarf líklegast að fara 52 ár aftur í tímann til að finna lokakeppni HM þar sem ekki var búið að handtaka Englending á mótstað eftir fjóra leiki.

Um tíu þúsund Englendingar voru viðstaddir leiki liðsins í riðlakeppninni en von er á fleiri Englendingum á leikinn gegn Frökkum.