Ísland og Færeyjar mætast í kvöld í vináttulandsleik í fótbolta karla á Tórsvelli í Færeyjum. Leikurinn hefst kl. 18.45 að íslenskum tíma. Þetta verður í 26. skipti sem A-landslið þjóðanna í karlaflokki mætast.

Um er að ræða fyrsta leikinn á Tórsvellinum eftir að endurbætur voru gerðar á vellinum.

Íslenska liðið hefur unnið sigur 23 sinnum, liðin gerðu markalaust jafntefli árið 1984 og eini sigur Færeyinga var í vináttulandsleik í Kórnum í Kópavogi árið 2009.

Frændþjóðirnar hafa tvisvar sinnum mæst í mótsleik en liðin voru saman í riðli í undankeppni EM 2004. Þá vann íslenska liðið 2-1 sigur í báðum viðureignum liðanna.

Þjálfarateymið Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen aðstoðarþjálfari léku báða þessa leiki og skoraði Eiður Smári í útileiknum.

Allir leikmenn íslenska liðsins komu heilir út úr tapinu gegn Mexíkó um síðustu helgi en Patrik Sigurður Gunnarsson og Jón Guðni Fjóluson voru ekki með í þeim leik vegna meiðsla og ferðuðust af þeim sökum ekki með til Færeyja.

Ísak Bergmann Jóhannesson, sem lék sinn fyrsta byrjunarliðsleik, býst við að Ísland verði meira með boltann í leiknum og færi gæfist á því að fara yfir uppspil og sóknarleik í meira mæli í þessum leik en í leiknum gegn Mexíkó.

„Við munum líklega stjórna ferðinni í þessum leik og vera meira með boltann. Þarna fáum við tækifæri til þess að fara yfir uppspilið sem er jákvætt,“ sagði Ísak Bergmann á blaðamannafundi fyrir leikinn.

„Það var mikill heiður að fá að spila með Aroni Einari Gunnarssyni og Birki Bjarnasyni í leiknum gegn Mexíkó og nú er einbeitingin hjá mér bara á leiknum við Færeyjar," sagði þessi efnilegi miðjumaður enn fremur en hann lék sinn fyrsta byrjunarliðsleik með A-landsliðinu þegar Ísland lék við Mexíkó.