BT Sport í Danmörku greinir frá því að FCK sé búið að samþykkja tilboð frá Úkraínu í landsliðsmiðvörðinn Ragnar Sigurðsson.

Ragnar samdi við danska félagið í annað sinn á ferlinum fyrir rúmu ári síðan en hann hefur einnig leikið með Gautaborg, Rostov, Rubin Kazan, Krasnodar og Fulham á fimmtán ára atvinnumannaferli.

Árbæingurinn hefur glímt við meiðsli og því aðeins komið við sögu í níu leikjum með FCK á þessu einu ári.

Rukh Lviv er aðeins átján ára gamalt félag og tefldi fyrst fram meistaraflokki árið 2009 og leikur á velli sem tekur 3800 manns. Sjö ár eru liðin síðan félagið vann áhugamannadeildina þar í landi og hefur uppgangurinn undanfarin ár verið ævintýralegur.

Á síðasta ári komst félagið upp í efstu deild í fyrsta sinn í sögunni og er að berjast fyrir lífi sínu þessa dagana.