Gylfi Þór Sigurðsson er að hefja sitt sjöunda heila tímabil í ensku úrvalsdeildinni á morgun þegar Everton mætir nýliðum Úlfanna í erfiðum útileik strax í fyrstu umferð. Er hann að hefja annað ár sitt í herbúðum Everton eftir að hafa áður leikið með liðum Swansea og Tottenham. Mun Gylfi eflaust hagnast á því að hafa náð að fá undirbúningstímabilið með liðsfélögum sínum til að komast betur í takt í stað þess að koma inn þegar tímabilið er að hefjast.

Það er ferskur blær yfir Goodison Park þessa dagana eftir að Marco Silva tók við liðinu á dögunum og er honum ætlað að brjóta Everton leið inn í hóp sex efstu liðanna. Stuðningsmenn Everton voru fegnir að sjá á eftir Sam Allardyce á vordögum og fengu inn stjóra sem félagið var að eltast við en fékk ekki að semja við síðasta haust.

Hefur Silva sótt tvo brasilíska kantmenn í sumar, Bernard og Richarlison ásamt þríeyki frá Barcelona: Yerry Mina, André Gomes og Lucas Digne, og ætti það að henta Gylfa vel. Með Bernard, Richarlison og Digne ætti að koma meiri breidd í spilamennskuna og liðið, sem ekki var til staðar í fyrra þegar Gylfa var oft ýtt út á kantinn til að koma fyrir leikmönnum eins og Wayne Rooney. Þá lék hann ýmist sem kantmaður, miðjumaður eða fékk að spreyta sig sem framherji undir stjórn Allardyce.

Sagan ætti ekki að endurtaka sig undir stjórn Silva sem vill spila 4-3-3 leikkerfi og gæti Gylfi þar fengið stórt hlutverk sem annar miðjumannanna sem hafa frelsi til að sækja. Þá reiðir lið Silva sig mikið á fljóta kantmenn sem geta sprengt upp leikinn og eru fáir betri í deildinni en Íslendingurinn í að finna plássið fyrir aftan bakverðina sem fljótir kantmenn geta leitað í.

Sjálfur sagðist Gylfi í samtali við staðarblaðið í Liverpool vera feginn að fá að spila sína stöðu inni á vellinum, á miðri miðjunni, eins og hann hefur gert með góðum árangri fyrir íslenska landsliðið undanfarin ár.

„Þjálfarinn vill hafa mig á miðjunni sem er jákvætt, það eru komnir mjög fljótir kantmenn sem teygja á vellinum og vonandi fæ ég að spila á miðjunni og hlutverk mitt verði að finna þá í svæðinu fyrir aftan varnir andstæðinganna. Ég lærði margt af tímabilinu í fyrra, sérstaklega við að spila sem sóknarmaður en það var erfitt,“ sagði Gylfi og hélt áfram:

„Það var engin óskastaða og ég var færður meira til en ég bjóst við en ég var tilbúinn að gera hvað sem var fyrir liðið.“

Þegar Rooney er farinn frá félaginu er ljóst að Gylfi verður spyrnusérfræðingur liðsins og ætti það að hjálpa honum að skila betri tölfræði, bæði í markaskorun og stoðsendingum. Pressan sem dýrasti leikmaðurinn í sögu félagsins, ætti að minnka með kaupunum á Richarlison sem kostaði svipaða upphæð og Gylfi.

Draumatímabil hjá Gylfa og Everton væri að allt myndi smella strax undir stjórn Silva og að þeir myndu gera atlögu að sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta ári. Gylfi væri í lykilhlutverkinu sem hann fær hjá íslenska landsliðinu og þrífst á með landsliðinu. 

Það verður krefjandi og erfitt fyrir Everton sem hefur aðeins einu sinni á síðustu þrjátíu árum endað meðal fjögurra efstu en kannski er komið að Gylfa að taka liðið á herðar sér og bera það upp á næsta stig, rétt eins og hann hefur gert með landsliðinu.

Þessi grein birtist í sérblaði um enska boltann sem fylgdi Fréttablaðinu í dag.