Guðlaugur Victor Pálsson er ekki í leikmannahóp Íslands fyrir næstu tvo leiki karlalandsliðsins í undankeppni HM 2022.

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari karlalandsliðsins, segir að málið eigi sér eðlilega skýringu.

Guðlaugur Victor óskaði eftir því að fá að fara fyrr úr síðasta landsliðsverkefni fyrir leik Íslands og Liechtenstein og gaf þjálfarateymið honum leyfi til að yfirgefa liðið á milli leikja.

Hann er ekki í leikmannahópnum fyrir leiki gegn Rúmeníu og Norður-Makedóníu og segir Arnar að það megi rekja það til persónulegra ástæðna.

„Hjá Gulla eru fjölskyldulegar ástæður fyrir því að hann kemst ekki, Gulli á strák sem býr í Kanada. Það vill svo til að strákurinn er í Evrópu með mömmu sinni. Gulli fékk möguleika á að vera með syni sínum í ákveðinn tíma. Ég lít á það þannig að börnin mín eru mikilvægari en tveir fótboltaleikir.“

Arnar Þór greindi svo frá því að Hjörtur Hermannsson hafi ekki verið valinn í hópinn í komandi leiki þar sem kærasta hans eigi von á barni á næstu vikum.