„Það var meira áfall fyrir mömmu því hún elskar að fara inn í heitan bíl á morgnana og nú er bíllinn geymdur úti. Þeim finnst ég alveg léttklikkuð,“ segir Guðlaug Edda Hannesdóttir ein fremsta þríþrautarkona landsins,en hún hefur komið sér upp sundaðstöðu í bílskúrnum heima hjá sér með átta þúsund króna uppblásinni sundlaug úr Costco.

Guðlaug Edda er nú komin í faðm fjölskyldu sinnar eftir að hafa verið erlendis mest megnis undanfarin fjögur ár. Hún fékk engin laun fyrir marsmánuð og fer sparlega með peningana. Hún getur ekki keypt hlaupaúr í staðinn fyrir það gamla sem eyðilagðist. „Það er mikil óvissa hjá mér. Ég persónulega er ekki búin að fá upplýsingar um afreksstyrkinn eða hvort Ólympíuleikastyrkjunum verði haldið áfram. Það hefur ekki verið mikið af tækifærum til að fá styrktaraðila á Íslandi, þannig að ég hef ekki verið mikið styrkt þannig. Mínar helstu tekjur hafa komið úr keppnum þar sem ég næ góðum árangri þar sem eru peningaverðlaun í boði. Núna eru engar keppnir þannig það er enginn möguleiki á að fá þá peninga.

Ég er bara að spara eins mikið og ég mögulega get. Þannig að á næsta ári geti ég pottþétt komist í keppnir og tryggi mér sæti á leikunum. Sem dæmi eyðilagðist hlaupaúrið mitt og að kaupa nýtt er mjög dýrt. Ég tók þá ákvörðun að vera ekki að kaupa nýtt heldur hlaupa án þess því ég er að reyna að spara fyrir næsta ár. Það hefur ekki verið létt.“

Guðlaug gat eðlilega ekkert synt í samkomubanninu þannig að hún gerði svokallaðar dry land æfingar. Henni hugkvæmdist þá betri lausn.

Í þríþraut er keppt í sundi, hlaupi og hjólreiðum. Guðlaug hefur verið búsett erlendis undanfarin fjögur ár þar sem hún hefur getað komist út að hlaupa og hjóla nánast alla daga ársins. Frá því hún kom til Íslands hefur veðrið ekki verið upp á marga fiska svo hún nýtir tæknina til hins ítrasta. Hjólar á svokölluðum trainer og hleypur úti þegar veður leyfir. „Ég er vön að gera styrktaræfingar í ræktinni sem ég get ekki gert núna en ég geri mitt besta í að reyna. Þá nota ég alls konar tæki og tól hér heima til að líkja eftir æfingum í ræktinni. Það er rauði þráðurinn að vera hugmyndaríkur og finna einhverjar leiðir til að gera það besta í þessum aðstæðum. Við getum ekki breytt en við getum aðlagast.“

Hún segir að þegar ferðabanni og öðrum tálmum vegna COVID-19 verði aflétt þurfi hún að vera tilbúin til að fara og keppa en það er ekkert grín að synda nokkra kílómetra, hjóla til Selfoss og til baka og hlaupa svo maraþon án þess að stoppa. „Ég er ekkert að gefast upp. Þetta er vinnan mín. Ég geri þá kröfu á sjálfa mig að finna leiðir því það getur verið keppt á ný kannski mánuði eftir að ferðabanninu er aflétt. Ég verð að vera undirbúin undir þann veruleika, allavega eins tilbúin og ég get verið þegar allt fer í gang aftur.“

„Þetta er ekki að koma í staðinn fyrir sundlaug en þetta er leið til að halda sundvöðvum í hreyfingu og hafa tilfinningu fyrir vatninu,“ segir Guðlaug.

Hún viðurkennir að það sé gott að vera heima í faðmi fjölskyldu og vina þó það sé í þessum aðstæðum. „Það var ekkert annað sem kom til greina en að koma aftur heim. Hér er ég með mitt stuðningsnet og er í heilbrigðiskerfinu. Það hjálpar alveg. Margir íþróttamenn þurftu að fara frá þessu keppnishugarfari, þar sem hver æfing er byggð upp þannig að maður nái sem mestu út úr henni, yfir í sveigjanlegt hugarfar. Að hugsa um að aðlagast. Í heiminum í dag eru stærri vandamál sem þarf að glíma við en afreksíþróttir.“

Það þarf ekki að tala lengi við Guðlaugu til að átta sig á því að hún er gríðarlega sterk andlega enda segist hún vinna vel í hausnum á sér. „Þegar leikunum var frestað tók ég einn dag þar sem ég þurfti að taka þetta allt inn og fara yfir breytingarnar því árið var í raun farið. Þannig að ég tók dag og settist niður og fékk að vera súr yfir þessu en skrúfaði svo hausinn aftur á og sætti mig við það sem er og reyndi að finna þessar lausnir.

Ég fékk heilahristing fyrir tveimur árum og lenti í eftirköstum og gat lítið æft og þurfti að setja mér ný markmið. Ég hef alltaf verið sterk líkamlega en mig vantaði að bæta andlegan styrk. Þegar maður er kominn svona nálægt toppnum þar sem sæti á Ólympíuleikunum og verðlaunasæti á stórum mótum eru í boði þá eru allir í sambærilega góðu formi. Það sem oft skiptir mestu máli þá er andlegi styrkurinn. Að trúa á sjálfan sig og kunna að vera í núinu og hvað maður eigi að gera og hvenær. Það getur skipt meira máli en líkamlegt form. Ætli þetta sé ekki bara hluti af því að vilja vera betri íþróttakona. Ég hef verið að vinna að sjálfsögðu með þjálfara en líka íþróttasálfræðingi og ég mæli með því fyrir alla sem vilja ná langt í íþróttum.“

"Mamma og pabbi hafa kennt mér að gefast ekki upp og finna lausnir og vera hugmyndarík. Þau vita hvað fer mikill tími í þetta og þau vita hvað þetta skiptir mig miklu," segir Guðlaug.