Í vikunni sem er að líða sigraði Real Madrid þýska liðið Frankfurt í Ofurbikar Evrópu. Eftir leik vakti Thibaut Courtois, markvörður fyrrnefnda liðsins, mikla athygli í viðtölum.

Leikurinn er spilaður árlega á milli sigurvegara Meistaradeildar Evrópu annars vegar og Evrópudeildarinnnar hins vegar frá leiktíðinni á undan.

Fór hann fram í Helsínki í Finnlandi í þetta skiptið. Lokatölur urðu 2-0 fyrir Real Madrid, þar sem David Alaba og Karim Benzema gerðu mörkin.

Eftir leik sýndi Courois svo snilli sína í viðtölum. Hann gaf viðtöl á fjórum mismunandi tungumálum, spænsku, ensku, frönsku og hollensku. Belgíski markvörðurinn getur einnig talað þýsku og portúgölsku að hluta til.

Courtois hefur verið á mála hjá Real Madrid síðan 2018. Hann kom til þangað frá enska stórliðinu Chelsea.

Real Madrid hefur leik í La Liga, efstu deild Spánar, annað kvöld, er liðið heimsækir nýliða Almeria.