Félagið tekur þessa ákvörðun eftir ráðleggingar frá smitrakningarteymi Almannavarna. ,,Samfélagið okkar er lítið og þétt og við erum með nokkra þjálfara og leikmenn ýmist með Covid 19, í sóttkví eða smitgát og því teljum við best að fella niður starfið til að sýna samfélagslega ábyrgð á meðan smitrakning er að ná utan um málin á Selfossi," segir í yfirlýsingu frá félaginu.

Fjarkennsla hefur verið í Fjölbrautarskóla Suðurlands þessa vikuna eftir að upp komst um þónokkur smit í skólanum og þá bárust fréttir af því í gærkvöldi að smit hefði komið upp á Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

,,Á okkur hvílir samfélagsleg ábyrgð og við viljum standa undir henni," sagði Þórir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Selfoss í samtali við Handbolti.is fyrr í dag. ,,Það er fyrst og fremst um varúðarráðstöfun að ræða í ljósi aðstæðna. Smit hafa verið í kringum Fjölbrautarskólann sem hefur verið lokaður alla vikuna. Við erum með þjálfara og leikmenn ýmist með veiruna, í sóttkví eða smitgát. Með þessari ákvörðun erum við að taka ábyrgð.