Brynjar Eldon Geirsson, framkvæmdarstjóri Golfsambands Íslands segir að allt hafi verið reynt til þess að reyna klára Íslandsmótið í golfi sem fram fór í Vestmannaeyjum um nýliðna helgi. Mikil rigning hafi hins vegar sett strik í reikninginn fyrir lokaumferð mótsins og gert völlinn óleikhæfann í gær, því hafi þurft að enda mótið eftir þrjár umferðir.

Kristján Þór Einarsson úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar og Perla Sól Sigurbrandsdóttir úr Golklúbbi Reykjavíkur eru því Íslandsmeistarar árið 2022 en Brynjar ræddi við Fréttablaðið í dag um Íslandsmótið í Vestmannaeyjum og ákvörðunina þungbæru.

Það var mótsstjórn sem tók ákvörðun um að blása fjórðu umferð mótsins af en veður var vont í Vestmannaeyjum í gær.

Völlurinn óleikhæfur með öllu

,,Þessi stjórn reynir að keyra mótin áfram eins vel og hægt er,“ segir Brynjar í samtali við Fréttablaðið. ,,Í þessu tilviki var völlurinn óleikhæfur, það var ekki flóknara en það. Ég er nú enn staddur í Vestmannaeyjum og get sagt að meira að segja í dag er völlurinn óleikhæfur.“

Það hefði því gagnast lítið að fresta mótinu um einn dag. ,,Mótsstjórnin vildi gera allt til þess að klára mótið eins og öll vildu gera. Það var því miður ekki hægt.“

Brynjar segir það ekki óeðlilegt að svona kringumstæður komi upp þar sem umferð sé felld niður.

,,Ef það ríkir slæmt veður eða eitthvað annað sem getur haft áhrif á mótið. Þetta var annars frábært mót og eiginlega þess vegna sem það er alveg extra svekkjandi að þurfa blása þessa síðustu umferð af. Að baki þessu móti býr mikill undirbúningur hjá Golfklúbbi Vestmannaeyja í samstarfi við Golfsamband Íslands.“

Mikið svekkelsi ríki með að hafa ekki náð að klára allar umferðir mótsins. ,,Það er búið að leggja líf og lungu í viðburðinn og hann fór alveg ótrúlega vel fram þessa þrjá daga. En það var þessi veðurspá fyrir síðasta keppnisdaginn sem hélt og gott betur en það.“

Aðstæður voru erfiðar í Vestmannaeyjum í gær
Mynd: Golfsamband Íslands

Spáin hafi valdið áhyggjum

Veðurspáin fyrir síðasta dag mótsins hafi valdið mótshöldurum áhyggjum. ,,Við vissum það frá upphafi móts að þetta gæti gerst, veðurkortin sýndu það. Spáin var komin fyrir helgina og hún breyttist lítið. Við fengum ótrúlega flotta ráðgjöf frá veðurfræðingum sem fóru í að skoða radar- myndir fyrir okkur, skipstjórinn í Herjólfi lagði sitt mat líka á þetta. Það lögðu okkur allir lið. Rigningin varð bara meiri en við bjuggumst við og völlurinn gat ekki tekið við þessu vatnsmagni.“

Það voru því kylfingarnir sem voru í forystu í karla- og kvennaflokki fyrir fjórðu umferðina sem voru krýndir Íslandsmeistarar. Kristján Þór varð því Íslandsmeistari í annað skipti á sínum ferli og í kvennaflokki varð það hin 15 ára gamala Perla Sól sem tryggði sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil.

Kristján Þór Einarsson úr GM og Perla Sól Sigurbrandsdóttir úr GR. Íslandsmeistarar árið 2022
Mynd: Golfsamband Íslands

,,Þau voru og eru bara ótrúlega góðir kylfingar og vel að þessu komin. Þau voru bara best hérna í vikunni,“ segir Brynjar, framkvæmdastjóri GSÍ í samtali við Fréttablaðið.

,,Kristján Þór hefur náttúrulega gert þetta áður og hefur tengingu til Eyja. Hann er alltaf hættulegur á þessum velli og maður vissi að hann yrði alltaf með í baráttunni.“

,,Svo var þetta náttúrulega rosalega flott hjá Perlu Sól að ná að klára þetta svona eins og hún gerði. Hún er ekki leggja nein smá nöfn að velli í þessu móti.“