Íslenska karlalandsliðið mætir því sænska í gríðarlega mikilvægum leik á Heimsmeistaramótinu í handbolta í kvöld. Munu úrslitin að öllum líkindum hafa mikið að segja um framhaldið.

Um leik í milliriðli er að ræða. Ísland er sem stendur í öðru sæti með fjögur stig, en lið taka stig úr riðlakeppninni með sér inn í millriðli, nema þau sem þau fengu gegn neðsta liðinu.

Sigri íslenska liðið leik kvöldsins er það í afar góðum málum fyrir lokaleikinn gegn Brasilíu. Sigur þar myndi þá hundrað prósent duga Íslandi inn í 8-liða úrslit.

Tapi Strákarnir okkar í kvöld vandast hins vegar málið. Það myndi þýða að Svíar væru búnir að tryggja sér efsta sæti riðilsins og sæti í 8-liða úrslitum. Liðið sem hafnar í öðru sæti fer hins vegar einnig í 8-liða úrslit og ætti Ísland möguleika á því.

Þá þyrftu þó önnur úrslit að falla með okkur. Vinni Portúgal Grænhöfðaeyjar í dag og Ungverjar vinna sinn leik gegn Brasilíumönnum væru bæði lið komin upp fyrir Ísland ef leikurinn gegn Svíum tapast. Í því tilfelli væri Ísland nánast úr leik. Ungverjar mæta Grænhöfðaeyjum í lokaumferðinni og ættu að vinna þann leik örugglega.

Tapi Ísland hins vegar fyrir Svíum og aðeins Portúgalir vinna í kvöld er enn von. Þá er Ísland enn fyrir ofan Ungverja en þurfa að treysta á að Portúgalir misstígi sig í lokaumferðinni gegn Svíum, á sama tíma og íslenska liðið þarf að vinna Brasilíu. Í því tilfelli færi Ísland áfram í 8-liða úrslit þrátt fyrir að tapa í kvöld.

Bæði Ungverjar og Portúgalir spila á undan Íslandi í dag.

Leikur Íslands og Svíþjóðar hefst klukkan 19:30 í kvöld að íslenskum tíma.

Staðan í milliriðlinum
1. Svíþjóð - 6 stig (+24)
2. Ísland - 4 stig (+12)
3. Portúgal - 3 stig (+3)
4. Brasilía - 3 stig (-6)
5. Ungverjaland - 2 stig (-14)
6. Grænhöfðaeyjar - 0 stig (-19)