Svíþjóð vann öruggan 5-1 sigur þegar liðið mætti Taílandi í annarri umferð í F-riðli heimsmeistaramótsins í knattspyrnu kvenna í Nice í dag.

Linda Sembrant, Kosovare Asllani, Fridolina Rolfo, Lina Hurtig og Elin Rubensson skoruðu mörk Svía í leiknum en Kanjana Sung-Ngoen skoraði sárabótarmark fyrir Taíland.

Bandaríkin sem er ríkjandi heimsmeistari lagði svo Síle að velli með þremur mörkum gegn engu í leik liðanna í París. Carli Lloyd skoraði tvö marka Bandaríkjanna í leiknum og Julie Ertz bætti þriðja markinu við.

Þessir sigrar fleyta sænska liðinu og Bandaríkjunum áfram í 16 liða úrslit keppninnar en þau hafa haft betur í báðum leikjum sínum í riðlakeppninni og mætast svo í lokaumferðinni þar sem efsta sætið er í húfi.

Nú eru níu lið komin í 16 úrsltin en áður höfðu Frakkland, Þýskaland, Ítalía, England, Holland og Kanada tryggt sér sæti þar. Úrslit kvöldsins þýða svo að Japan verður eitt þeirra liða sem fer áfram með besta áramgurinn í þriðja sæti.

Carli Lloyd horfir á eftir boltanum fara í netið í sigri Bandaríkjannna gegn Síle í kvöld.
Fréttablaðið/Getty