Gary John Martin kom ÍBV yfir með marki sem hann skoraði með því að nota hendina, í leik Vestmannaeyjaliðsins gegn Leikni Reykjavík í 1. deild karla í knattspyrnu síðastliðið þriðjudagskvöld.

Enski framherjinn, sem hefur skorað fimm mörk í fyrstu fjórum leikjum Eyjamanna, sem hafa fullt hús stiga á toppi deildarinnar, viðurkenndi sök sína í málinu á Twitter-síðu sinni eftir leikinn. Þar bað hann Leiknismenn afsökunar, sem hafa líklega hugsað honum þegjandi þörfina frá því að markið var skorað.

Markið sem krakkinn frá Darlington skoraði fyrir ÍBV er að sjálfsögðu ekki eina tilvikið þar sem knattspyrnumenn hafa fengið að nota hendina til þess að koma boltanum í netið á ögurstundu.

Hér fyrir neðan má sjá nokkur atvik úr knattspyrnusögunni þar sem svindlmörk skoruð með hendinni hafa fengið að standa, andstæðingum þeirra leikmanna sem skoruðu mörkin til mikillar gremju.

Franski framherjinn Thierry Henry notaði það örþrifaráð að slá boltann inn, þegar franska liðið var í baráttu við Írland um að komast í lokakeppni heimsmeistaramótsins sem haldið var í Suður-Afríku það herrans ár 2010.

Hinn ljúfi spænski framherji Raul, notaði hönd sína lymskulega þegar hann skoraði fyrir Real Madrid gegn Leeds United, í Meistaradeild Evrópu árið 2001.

Úrúgvæinn Luis Suárez skoraði reyndar ekki með hendinni, en á HM 2010 varði hann meistaralega á línu með hendinni og kom í veg fyrir mark Ganverja í framlengingu í útsláttarkeppni mótsins. Úrúgvæ fór að lokum með sigur af hólmi í leiknum, þökk sé markvörslu úrúgvæska framherjans.

Lionel Messi ákvað að herma eftir samlanda sínum Maradona, þegar hann skoraði með hönd guðs í nágrannaslag Barcelona gegn Espanyol.