Svíþjóð vann nauman 26-25 sigur á kvennalandsliði Íslands í æfingarleik handbolta sem fram fór í DB-Schenker höllinni í kvöld.
Fékk Ísland tækifæri til að jafna metin á lokasekúndum leiksins en náði ekki að nýta sér það eftir kaflaskiptan leik.
Var þetta fyrri æfingarleikur liðanna af tveimur í þessu landsleikjahléi sem er undirbúningur fyrir komandi verkefni kvennalandsliðsins í undankeppni HM 2019.
Andstæðingurinn var gríðarlega sterkur, Svíþjóð lenti í 4. sæti á HM á síðasta ári og eru aðeins fjögur ár síðan þær tóku brons á EM í Ungverjalandi og Króatíu.
Ísland var án þriggja lykilleikmanna í leiknum, Guðrún Ósk Maríasdóttir, Hildigunnur Einarsdóttir og Steinunn Björnsdóttir gáfu ekki kost á sér og var Ísland því með nokkuð ungt lið.
Íslenska liðið hóf leikinn af krafti og virtist það koma Svíunum í opna skjöldu en eftir því sem leið á leikinn komust Svíar betur inn í leikinn og leiddu 10-6 um miðbik hálfleiksins.
Ísland svaraði með 9-3 kafla þar sem Karen Knútsdóttir fór að stýra leiknum og virkti liðsfélaga sína vel. Leiddi Ísland 15-13 í hálfleik eftir flottan lokasprett.

Í seinni hálfleik setti sænska liðið í gír og átti flotta 9-3 rispu sem gaf þeim forskotið á nýjan leik.
Leiddu þær það sem eftir lifði leiks þótt að Ísland hafi aldrei verið langt undan og neitað að gefast upp.
Minnkuðu þær forskotið niður í eitt mark fyrir lokamínútuna og fengu 2-3 færi til að jafna leikinn en náðu ekki að nýta sér það.
Lauk leiknum með 26-25 sigri Svía og þrátt fyrir tapið var ýmislegt hjá íslenska liðinu sem hægt er að byggja á.
Arna Sif Pálsdóttir og Lovísa Thompson voru atkvæðamestar hjá Íslandi með fjögur mörk.