Það er áhugavert að skoða spá sænska knattspyrnuvefmiðilsins Fotbollskanalen milli vikna fyrir leiki Malmö og Víkings Reykjavíkur í Meistaradeild Evrópu. Liðin mætast á Víkingsvelli í seinni leik einvígisins í kvöld og orðræðan hefur breyst úr því að vera völtun leikmanna Malmö yfir Víking yfir í að vera erfiður slagur þar sem Svíarnir eiga á hættu á að falla úr leik.

Fyrri leikur liðanna í Svíþjóð endaði með 3-2 sigri Malmö. Víkingar sýndi mátt sinn í leiknum og gáfust ekki upp þó á móti blési eftir að Kristall Máni Ingason var rekinn af velli á 39. mínútu. Liðið fer inn í seinni leikinn með möguleika á að slá sænsku meistarana úr leik.

Fyrir viku síðan fjallaði Fréttablaðið um spá Fotbollskanalen fyrir fyrri leik liðanna. Sérfræðingar sænska miðilsins spáðu því að Malmö myndi valta yfir Víkingana og að einstefna yrði að marki Íslendinga. ,,Gera má ráð fyrir ein­stefnu í leiknum, mér finnst engin á­stæða til þess að ætla annað. Mal­mö vinnur," stóð jafnframt í spá miðilsins.

Komið annað hljóð í strokkinn

Víkingarnir komu mörgum á óvart í fyrri leiknum líkt og Arnar Gunnlaugsson, þjálfari liðsins undirstrikaði á blaðamannafundi í gær. ,,Ég horfi meira í frammistöðuna hjá okkur 11 á móti 11 sem var framúrskarandi. Við höfum horft á marga heimaleiki Malmö og það er nánast ekkert lið í sænsku deildinni sem tekur leikinn til þeirra, reyna að koma í veg fyrir yfirburði þeirra á bolta. Þannig ég var mjög ánægður með það hvernig við nálguðumst leikinn í Svíþjóð og vorum ekki hræddir við það að spila okkar leik. Það gefur okkur sjálfstraust fyrir leikinn á morgun."

Milos Milojevic, þjálfari Malmö snýr aftur á sinn gamla heimavöll í kvöld
Mynd: Malmö

Sérfæðingar Fotbollskanalen hafa nú lagt mat sitt fyrir seinni viðureign liðanna þar sem óhætt er að segja að kveði við annan tón en í síðustu viku.

,,Malmö líklegri en í hættu," er fyrirsögn miðilsins og svo kemur runan: ,,Taugatrekkjandi vindar hafa blásið um Malmö yfir lengri tíma núna og frammistöður liðsins undanfarið hafa varla róað öldurnar. Víkingar mættu til leiks í fyrri leikinn með látum og sýndu hugrekki."

Þá skýtur miðillinn föstum skotum í áttina að Milos Milojevic, þjálfara Malmö og fyrrum þjálfara Víkings.

,,Ég er ekki viss um að Milos hafi haft jafn góða þekkingu á spilamennsku Víkinga líkt og hann gaf út fyrir að búa yfir. Víkingar voru ekki síðri en Malmö 11 á móti 11 og náði í þónokkur skipti að brjóta Svíana á bak aftur."

Sérfræðingur Fotbollskanalen telur Víkinga hættulegan andstæðing fyrir leik kvöldsins.

,,Víkingar eru meðal bestu liða heimafyrir og á gervigrasinu á Víkingsvelli fyrir liðið inn í leik kvöldsins með engu að tapa."