Svíþjóð vann sannfærandi 32-25 sigur þegar liðið mætti Íslandi í lokaumferð í milliriðli Evrópumótsins í handbolta karla í Malmö Arena í kvöld. Lokatölur í leiknum urðu 32-25 Svíum í vil sem skutust þar með upp fyrir íslenska liðið og af botni milliriðilsins.

Guðmundur Þórður Guðmundsson hristi upp í byrjunarliði íslenska liðsins en Haukur Þrastarson stýrði sóknarleiknum og var með þá Aron Pálmarsson og Viggó Kristjánsson sitt hvoru megin við sig í skyttustöðunum. Guðjón Valur Sigurðsson og Arnór Þór Gunnarsson hófu leik í hornunum og Kári Kristján Kristjánsson inni á línunni. Elvar Örn Jónsson og Ýmir Örn Gíslason leystu svo Viggó og Kára Kristján af hólmi þegar íslenska liðið varðist.

Svíar hófu leikinn betur og þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar af leiknum voru heimamenn 7-3 yfir. Svipaður munur hélst á liðunum fram að lokum hálfleiksins en Svíþjóð vann lokahluta fyrri hálfleiksins 4-1 og var 18-11 yfir í hálfleik. Guðjón Valur Sigurðsson fór fyrir íslenska liðinu í fyrri hálfleik en hann skoraði fjögur mörk fyrstu 30 mínútur leiksins. Alexaner Petersson og Haukur komu næstir með tvö mörk hvor.

Þjálfarateymið skipti um hornamenn í háfleik og Bjarki Már Elísson og Sigvaldi Björn Guðjónsson komu inn í hornin. Bjarki Már skoraði fyrstu tvö mörk Íslands í seinni hálfleiknum. Bilið hélst í sjö til níu mörkum út seinni hálfleikinn og þegar upp var staðið munaði sjö mörkum á liðunum. Bjarki Már varð á endanum markahæsti leikmaður íslenska liðsins í leiknum ásamt Kára Kristjáni með fimm mörk. Guðjón Valur kom þar á eftir með fjögur mörk.

Sveinn Jóhannsson skoraði sitt fyrsta mark á stórmóti þegar hann komst á blað undir lok leiksins. Ísland laut í lægra haldi í þremur af fjórum leikjum sínum í milliriðlinum og bar sigurorð í einum. Íslenska liðið hafnar þar af leiðandi í neðsta sæti milliriðils 2 með tvö stig og endar í 11. sæti á mótinu.

Mörk íslenska liðsins í leiknum: Bjarki Már Elísson 5/1, Kári Kristján Kristjánsson 5, Guðjón Valur Sigurðsson 4, Alexander Petersson 3, Haukur Þrastarson 2, Sigvaldi Björn Guðjónsson 2, Janus Daði Smárason 1, Viggó Kristjánsson 1, Ólafur Andrés Guðmundsson 1, Sveinn Jóhannsson 1.

Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 4, Björgvin Páll Gústavsson 2.