Það er ekki hægt að segja annað en að sænska þjóðin sé í blússandi gleðisveiflu yfir gengi sænska karlaliðsins í handbolta nú þegar keppni í milliriðlum HM í handbolta er hafin. Svíar eru á heimavelli á mótinu, hafa ekki stigið feilskref og nú virðist spurningin aðeins snúast um það hvaða lið bíði í 8-liða úrslitum, ekki hvort liðið muni ná þangað.
Það er ekki óvenjulegt að Svíar hugsi svo langt nú þegar aðeins tvær umferðir eru eftir af milliriðlunum. Svíar eru með fullt hús stiga og horfa fram á leik við íslenska landsliðið á morgun í Gautaborg, leik sem getur tryggt þá inn í átta liða úrslitin.
Á sama tíma þarf íslenska liðið að grafa djúpt ætli það sér að standast ríkjandi Evrópumeisturunum snúning, bras hefur verið á varnarleik okkar manna og sænski handboltasérfræðingurinn Patrick Ekwall sér sænska landsliðið ekki tapa stigum í þeim tveimur leikjum sem liðið á eftir í milliriðlum.
„Enn og aftur var Svíþjóð mætt til leiks," skrifar Patrick í pistli sem birtist á vef Expressen eftir sannfærandi sigur Svía og Ungverjum í gærkvöldi. „Nú situr aðeins eftir spurningin hverjir bíða okkar í átta liða úrslitum? Ég veit að þessu er ekki lokið fyrr en öll kurl eru komin til grafar, það getur reynst hættulegt að jinxa svona hluti en staðreyndin er sú að það verður erfitt fyrir okkar menn að missa af farmiðanum til Stokkhólms úr því sem komið er.“
Úrslitakeppni HM í handbolta verður að mestu leiti til spiluð í Stokkhólmi, þar mun úrslitaleikurinn sjálfur til að mynda fara fram.
„Vitanlega eru leikirnir sem eftir eru gegn Íslandi og Portúgal krefjandi en gæðastigið sem Jim Gottfridsson og co. eru að spila á núna valda því að ég á erfitt með að sjá liðið tapa þessum leikjum á heimavelli.“
Fólk geti farið að panta sér miða á átta liða úrslitin. Ef sænska liðið haldi áfram að skila inn svona frammistöðu muni liðið enda á mjög góðum stað á HM.
Leikur Íslands og Svíþjóðar hefst klukkan 19:30 á morgun.