Það er ekki hægt að segja annað en að sænska þjóðin sé í blússandi gleði­sveiflu yfir gengi sænska karla­liðsins í hand­bolta nú þegar keppni í milli­riðlum HM í hand­bolta er hafin. Svíar eru á heima­velli á mótinu, hafa ekki stigið feil­skref og nú virðist spurningin að­eins snúast um það hvaða lið bíði í 8-liða úr­slitum, ekki hvort liðið muni ná þangað.

Það er ekki ó­venju­legt að Svíar hugsi svo langt nú þegar að­eins tvær um­ferðir eru eftir af milli­riðlunum. Svíar eru með fullt hús stiga og horfa fram á leik við ís­lenska lands­liðið á morgun í Gauta­borg, leik sem getur tryggt þá inn í átta liða úr­slitin.

Á sama tíma þarf ís­lenska liðið að grafa djúpt ætli það sér að standast ríkjandi Evrópu­meisturunum snúning, bras hefur verið á varnar­leik okkar manna og sænski hand­bolta­sér­fræðingurinn Pat­rick Ekwall sér sænska lands­liðið ekki tapa stigum í þeim tveimur leikjum sem liðið á eftir í milli­riðlum.

„Enn og aftur var Sví­þjóð mætt til leiks," skrifar Pat­rick í pistli sem birtist á vef Expres­sen eftir sann­færandi sigur Svía og Ung­verjum í gær­kvöldi. „Nú situr að­eins eftir spurningin hverjir bíða okkar í átta liða úr­slitum? Ég veit að þessu er ekki lokið fyrr en öll kurl eru komin til grafar, það getur reynst hættu­legt að jinxa svona hluti en stað­reyndin er sú að það verður erfitt fyrir okkar menn að missa af far­miðanum til Stokk­hólms úr því sem komið er.“

Úr­slita­keppni HM í hand­bolta verður að mestu leiti til spiluð í Stokk­hólmi, þar mun úr­slita­leikurinn sjálfur til að mynda fara fram.

„Vitan­lega eru leikirnir sem eftir eru gegn Ís­landi og Portúgal krefjandi en gæða­stigið sem Jim Gott­frids­son og co. eru að spila á núna valda því að ég á erfitt með að sjá liðið tapa þessum leikjum á heima­velli.“

Fólk geti farið að panta sér miða á átta liða úr­slitin. Ef sænska liðið haldi á­fram að skila inn svona frammi­stöðu muni liðið enda á mjög góðum stað á HM.

Leikur Íslands og Svíþjóðar hefst klukkan 19:30 á morgun.