Stuðnings­menn þýska stór­liðsins Schalke voru að vonum von­sviknir í gær­kvöldi þegar liðið féll úr þýsku úr­vals­deildinni í fót­bolta. Liðið tapaði 1-0 fyrir Arminia Biele­feld og þar með á þetta forna stór­veldi ekki lengur mögu­leika á að halda sér í deild þeirra bestu.

Schalke er lang­neðst í þýsku deildinni með 13 stig úr 30 leikjum. Liðið hefur að­eins unnið tvo leiki, skorað 18 mörk en fengið á sig 76.

Stuðnings­menn Schalke voru mættir fyrir utan heima­völl liðsins í Gel­senkirchen í gær­kvöldi og köstuðu þeir eggjum í leik­menn og starfs­lið þegar liðs­rútan kom á völlinn. Í frétt Guar­dian kemur fram að á milli 500 og 600 stuðnings­menn hafi verið á svæðinu.

Stuðnings­menn létu vel í sér heyra og kveiktu í flug­eldum og blysum. Þó nokkur fjöldi lög­reglu­manna var á svæðinu og komu þeir í veg fyrir frekari að­súg stuðnings­manna að liðinu.

Schalke hefur verið í deild þeirra bestu sam­fleytt í 33 ár og er liðið með einn stærsta heima­völlinn í þýska boltanum. Undir venju­legum kring­um­stæðum mæta um 60 þúsund manns á heima­leiki liðsins.

Schalke telst til stór­liða þýska boltans og hefur liðið oftar en ekki verið í topp­bar­áttunni á undan­förnum árum. Liðið varð í 2. sæti deildarinnar tíma­bilið 2017-2018, en alls hefur liðið lent fimm sinnum í 2. sæti á þessari öld og aldrei neðar en í 14. sæti – fyrr en nú.