Sveinn Aron Guðjohnsen, leikmaður Elfsborg og íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, skoraði tvisvar um helgina þegar hann byrjaði fyrsta leik sinn fyrir Elfsborg í sænsku úrvalsdeildinni.

Sveinn Aron var keyptur til sænska félagsins fyrr á þessu ári frá Spezia á Ítalíu en hann hefur einnig leikið með Odense og Ravenna á atvinnumannaferlinum.

Hann hefur komið inn af varamannabekknum í fyrstu leikjum sínum fyrir félagið og var búinn að skora eitt mark á 43. mínútum fyrir leik helgarinnar.

Um helgina tókst Sveini að skora tvisvar á 61. mínútna kafla sem þýðir að hann er með þrjú mörk á 104 mínútum eða mark á 34. mínútna fresti.