Íslenska liðið tók öll völd á vellinum strax frá upphafi leiksins en í fyrstu sókn liðsins náði Elín Metta Jensen forystunni. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir sem var að leika sinn annan A-landsleik átti þá fyrirgjöf sem endaði fyrir fótum Elínar Mettu sem skilaði boltanum í netið.

Öflug byrjun Íslands sem hélt áfram að herja á lettneska liðið. Sex mínútum síðar skoraði Sveindís Jane Jónsdóttir í sínum fyrsta A-landsleik. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir sendi þá boltann fyrir, Elín Metta skallaði boltann til Sveindísar Jane sem kom sér á blað með landsliðinu.

Áfram var járnið hamrað á meðan það var heitt en eftir rúmlega stundarfjórðungs leik var staðan orðin 3-0 Íslandi í vil. Karólína Lea átti stoðsendinguna í því marki sem Dagný Brynjarsdóttir skoraði.

Markaveislan hélt áfram um miðjan fyrri hálfleikinn en Dagný var þar aftur að verki. Þá var komið að Alexöndru Jóhannsdóttur að leggja upp mark. Alexandra snéri laglega á varnarmann Letta og fann ennið á Dagnýju sem stangaði boltann í netið.

Sveindís Jane skoraði annað mark sitt í leiknum þegar um það bil hálftími var liðinn af leiknum. Þessi snöggi framherji vann boltann framarlega á vellinum, kom sér í gott skotfæri og kláraði færi með föstu og hnitmiðuðu skoti. Draumabyrjun á landsliðsferlinum hjá þessari 19 ára gömlu knattspyrnukonu.

Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði tvö mörk í frumraun sinni með íslenska A-landsliðinu.

Dagný fullkomnaði svo þrennu sína með marki sínu skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks. Gunnhildur Yrsa sá að þessu sinni um að finna Dagnýju í vítateig lettneska liðsins og aftur skallaði Selfyssingurinn boltann í markið. Barbára Sól Gísladóttir kom inná fyrir liðsfélaga sinn hjá Selfossi, Dagnýju, í hálfleik og Barbára Sól lék þar með sínar fyrstu mínútur fyrir A-landsliðið. Barbára Sól átti góðu innkomu í hægri bakvörðinn en hún lagði upp tvö mörk.

Leikmenn íslenska liðsins slökuðu á klónni í seinni hálfleik. Varnarmaður Lettlands varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark þegar 20 mínútur voru eftir af leiknum. Alexandra skoraði sitt annað landsliðsmark þegar hún bætti áttunda marki íslenska liðsins við skömmu fyrir leikslok. Karólína Lea rak svo síðasta naglann í líkkistu Letta í uppbótartíma leiksins. Hlín Eiríksdóttir sem kom inná sem varamaður fyrir Söru Björk Gunnarsdóttir spólaði sig þá upp kantinn og sendi boltann á Karólínu Leu sem skoraði sitt fyrsta landsliðsmark.

Niðurstaðan frábær 9-0 sigur Íslands í þessum langþráða mótsleik. Það er afar jákvætt að sjá framlag frá þeim ungu leikmönnum sem eru að brjóta sér leið inn í liðið bæði með mörkum og stoðsendingum.

Ísland hefur líkt og Svíþjóð fullt hús stiga eftir fjóra leiki á toppi riðilsins en Svíar gjörsigruðu veikindum hrjáð lið Ungverja, 8-0, í leik liðanna í kvöld. Toppliðin tvö, Ísland og Svíþjóð, leiða saman hesta sína á þriðjudaginn kemur á Laugardalsvellinum. Svíar eru fyrir þann leik með 23 mörk í plús á meðan markatalan er 19 mörk í plús hjá hjá Íslendingum.

Lið Íslands í leiknum var þannig skipað: Markvörður: Sandra Sigurðardóttir. Vörn: Hallbera Guðný Gísladóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir (Guðný Árnadóttir), Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir. Miðja: Sara Björk Gunnarsdóttir (fyrirliði) (Hlín Eiríksdóttir), Alexandra Jóhannsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir (Barbára Sól Gísladóttir). Sókn: Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, Elín Metta Jensen, Sveindís Jane Jónsdóttir.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir átti góða spretti á vinstri vængnum.