Þær Sveindís Jane Jónsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir eru hluti af 50 manna lista Goal.com yfir leikmenn sem áhorfendur eru hvattir til þess að fylgjast með á komandi Evrópumóti í knattspyrnu sem hefst á Englandi í vikunni.

Sveindís og Karólína gefa kollegum sínum á listanum ekkert eftir og eiga verðskuldað sæti á honum.

Báðar leika þær lykilhlutverk í íslenska landsliðinu og þá eru þeir báðar á mála hjá félögum í efstu deild Þýskalands. Sveindís hjá Wolfsburg og Karólína hjá Bayern Munchen.

Um Sveindísi Jane hafa álitsgjafar Goal.com þetta að segja:

,,Undir lok árs 2021 var Sveindís Jane Jónsdóttir farinn að vekja mikla athygli. Nokkrum mánuðum seinna, þegar að hún sneri aftur til Wolfsburg eftir vel heppnaða lánsdvöl í Svíþjóð, voru allir farnir að tala um hana. Knattspyrnukonu Íslands árið 2021.

,,Frábær frammistaða hennar í Meistaradeild Evrópu var lykillinn að framþróun hennar sem leikmanns. Þessi ungi sóknarmaður bognaði ekki undan pressunni heldur sýndi mikið sjálfsöryggi, sköpunargáfu og kraft. Sömuleiðis sýndi hún snilldar leikskilning sinn með og án bolta í erfiðum aðstæðum."

Sveindís Jane er fædd árið 2001. Hún á að baki 19 leiki fyrir íslenska landsliðið og hefur í þeim leikjum skorað 7 mörk.

Sveindís Jane er einn af burðarásunum í íslenska landsliðinu
Frettablaðið / Sigtryggur Ari

Um Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur höfðu álitsgjafar Goal.com þetta að segja:

,,Á Íslandi eru margar rísandi stjörnur í knattspyrnuheiminum og Karólína Lea er ein þeirra. Eftir að hafa verið einn besti leikmaður íslensku deildarinnar um nokkurra ára tímabil vann hún sér inn samning hjá Bayern Munchen aðeins 19 ára gömul. Stoðsendingar og frábær tæknilega hlið leiks hennar vöktu mikla athygli."

,,Karólína getur spilað sem miðjumaður eða úti á vængnum, hún hefur fljótt orðið einn mikilvægasti leikmaður íslenska landsliðsins og býr yfir eftirtektaverðum árangri hvað markaskorun varðar hjá liðinu."

Karólína á að baki 19 leiki fyrir íslenska landsliðið og hefur í þeim leikjum skorað sjö mörk.

Karolina Lea Vilhjálmsdóttir hefur gert góða hluti með Bayern Munchen og íslenska landsliðinu
Fréttablaðið/GettyImages