Barcelona tilkynnti í dag að félagið hefði selt alla miðana á undanúrslitaleik kvennaliðs félagsins gegn Wolfsburg í Meistaradeild Evrópu sem fer fram á Nývangi.

Þetta er annar leikur kvennaliðs Barcelona í Meistaradeildinni í röð sem fer fram á fullum Nývangi sem tekur rúmlega níutíu þúsund manns í sæti.

Að sögn Barcelona seldust miðarnir upp á fyrsta sólarhringnum og verður það metjöfnun á fyrra heimsmeti yfir flesta áhorfendur á kvennaleik.

Fyrri leikur liðanna fer fram á Spáni þann 22. apríl næstkomandi og seinni viðureignin er á heimavelli Wolfsburg átta dögum síðar.

Sveindís Jane Jónsdóttir leikur með Wolfsburg og fær því tækifæri til að láta ljós sitt skína gegn ríkjandi Evrópumeisturunum á stærsta knattspyrnuleikvangi álfunnar.