Harpa, sem er sjöundi markahæsti leikmaður kvennalandsliðsins frá upphafi, telur að það sé lykilatriði að byrja mótið vel gegn Belgum, spurð út í væntingar til íslenska landsliðsins í knattspyrnu sem hefur leik á Evrópumótinu í Englandi á sunnudaginn..

„Ég tel að þessi riðill henti okkur ágætlega, við eigum góða möguleika á að sigra Belgana í fyrsta leik. Ef við náum sigri þar þá væri það frábær byrjun á mótinu,“ segir Harpa og heldur áfram: „Ítalía hefur verið á uppleið síðustu ár og kvennaboltinn þar í mikilli sókn. Við eigum því von á hörkuleik þar og augun verða eflaust á leikmönnum íslenska liðsins sem hafa verið að spila þar og Söru Björk sem er á leið þangað.

Frakkarnir eru svo eitt af af þeim liðum sem eiga mikla möguleika á að fara heim með bikarinn. Það er alltaf lærdómsríkt að mæta svoleiðis liði en það má ekki gleyma því að þetta er Evrópumótið, allir leikir eru erfiðir og allt getur gerst.“

Aðspurð hvort það séu einhver spurningarmerki í aðdraganda mótsins segist Harpa viss um að Þorsteinn Halldórsson, þjálfari liðsins, leysi úr þeim. „Það er spurning hvernig leikformið er á nokkrum leikmönnum íslenska liðsins sem annað hvort eru að koma til baka eftir meiðsli, barneignir eða hafa verið að spila minna en vaninn er. Ég hef fulla trú á því að Steini nái að dreifa álaginu rétt svo það bitni sem minnst á árangrinum.“

Harpa á von á því að Sveindís verði eitt umtalaðasta nafn mótsins og er vongóð um að Karólína Lea muni um leið springa út.

„Sveindís gæti tekið mjög stórt skref í að verða eitt þekktasta nafnið á mótinu. Karólina Lea gæti verið sá leikmaður sem gæti blómstrað fyrir okkur á þessu móti,“ segir Harpa, um örlagavaldana (e. x-factor) í liði Íslands.

Sveindís Jane Jónsdóttir verður í stóru hlutverki í íslenska liðinu á EM
Instagram: Sveindisss

Harpa telur að sigurstranglegasta lið mótsins sé í riðli Íslands en að það gætu nokkur lið blandað sér í baráttuna. „Eins og ég nefndi hér áður þá er Frakkland líklegt til sigurs. Svo er ákveðið heimavallarforskot sem fellur með Englandi svo ég held að þær muni hagnast á því fram yfir Frakkana og standa uppi sem sigurvegarar. En það verður gaman að fylgjast með liðum eins og Spáni og Hollandi, þær spila skemmtilegan fótbolta og verða í baráttunni ásamt Þýskalandi og Svíþjóð.“