Svava Rós Guð­munds­dóttir, sóknar­maður ís­lenska lands­liðsins, gekk í raðir NJ/NY Got­ham í Banda­ríkjunum á dögunum. Hún var búin að af­þakka til­boð frá Banda­ríkjunum fyrr á ferlinum en var á­kveðin í að stökkva á tæki­færið ef það byðist í þetta skiptið.

Á dögunum kom upp orð­rómur um að Svava hefði fallið á læknis­skoðun hjá West Ham en hún segir það ekki rétt.

„Við fórum út og þegar við komum á svæðið var samningurinn ekki eins og búið var að semja um áður en ég fór út. Það var búið að breyta samningnum um það leyti sem Got­ham kom aftur inn í myndina og þá af­þakkaði ég boð West Ham þótt samningurinn stæði enn til boða.“

Hjá Got­ham mun Svava leika undir stjórn Juan Car­los Amor­ós sem hún segir að hafi áður sýnt sér á­huga.

„Þjálfarinn á stóran þátt í þessu, enda hefur hann hefur reynt áður að fá mig til sín. Ég er búin að tala mikið við hann og er hrifin af því hvernig hann vill spila fót­bolta og var í miklum sam­skiptum við hann. Ég er mjög spennt að vinna með honum enda gerði hann frá­bæra hluti með Hou­ston Dash seinni hluta síðasta tíma­bils.“

Liðið varð meistari á fyrsta tíma­bili sínu árið 2009 en olli von­brigðum á síðasta ári þegar Got­ham lenti í neðsta sæti deildarinnar.

„Liðið er að vinna í endur­nýjun. Það er komið nýtt þjálfara­t­eymi og fjöl­margir nýir leik­menn. Það er verið að byggja upp liðið með há­leit mark­mið sem er spennandi.“