Landsliðskonan Svava Rós Guðmundsdóttir skrifaði í dag undir átján mánaða samning við Bordeaux í frönsku úrvalsdeildinni en hún kemur til félagsins frá Kristianstad.
Svava sem er uppalin í Val er að semja við þriðja atvinnumannalið sitt eftir að hafa stigið fyrstu skrefin í atvinnumennsku hjá Röa í Noregi árið 2018.
Bienvenue Svava Rós Gudmundsdóttir ! L'internationale islandaise 🇮🇸 s'engage avec le FC Girondins de Bordeaux ! pic.twitter.com/ZgQMUdFj6r
— FCGB Féminines (@FCGBWomen) January 4, 2021
Frá Noregi fór Svava til Svíþjóðar þar sem hún lék undir stjórn Elísabetar Guðmundsdóttur undanfarin tvö ár. Samningur Svövu í Svíþjóð var að renna út og var henni því frjálst að semja við nýtt félag.
Svava er fjórði Íslendingurinn sem leikur í frönsku úrvalsdeildinni en fyrir eru þær Sara Björk Gunnarsdóttir hjá Lyon og Anna Björk Kristjánsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir hjá Le Havre.
Bordeaux lenti í þriðja sæti í deildinni á síðasta ári og er á sama stað í ár en stórliðin PSG og Lyon eru með gott forskot á næstu lið í toppbaráttunni.