Svava Rós Guðmundsdóttir, leikmaður Brann og íslenska kvennalandsliðsins, viðurkennir að hún sé fegin að vera laus allra mála hjá franska félaginu Bordeaux á sama tíma og það virðist allt vera í ljósum logum innan franska félagsins.

Svava samdi um starfslok við franska félagið í upphafi árs eftir að hafa verið í frystikistunni hjá Patrice Lair, þjálfara félagsins.

„Ég er mjög fegin að vera laus úr þessum málum. Ég get hinsvegar ekki sagt að þessi fjárhagsmál hafi haft áhrif á ákvörðun mína að yfirgefa félagið. Það var mun frekar samband mitt við þjálfarann,“ segir Svava, aðspurð hvort að það væri léttir að koma í stöðugt félag í ljósi stöðunnar í Frakklandi.

Félagið er á barmi gjaldþrots og var karlalið félagsins dæmt niður í þriðju deild vegna fjárhagsvandræða. Þá hefur eigandi félagsins, Gerard Lopez, kallað eftir aðstoð fjárfesta við að bjarga félaginu.

Lopez eignaðist félagið á síðasta ári þegar það var hætta á því að það yrði tekið til gjaldþrotaskipta og þrátt fyrir ýmsar aðgerðir til að rétta af bókhaldið er staðan enn grafalvarleg.

„Ég er enn í reglulegum samskiptum við marga af leikmönnum liðsins og það virðast flestar ef ekki allar vera á förum frá félaginu í sumar. Staðan er alls ekki góð. “