Tekjutap KSÍ vegna áhugaleysis landsmanna á íslenska karlalandsliðinu er mikið. Á betri tímum þegar íslenska landsliðið fór á EM og HM var KSÍ með um 100 milljónir í tekjur á ári af heimaleikjum landsliðsins. Á leikjum þar sem var uppselt komu um 30 milljónir í kassann hjá KSÍ.

Í bjartsýnustu spám var gert ráð fyrir að tekjur á ári gætu numið um 300 milljónum króna með nýjum velli. Samkvæmt tímaáætlun átti að vígja hann í lok þessa árs. Ljóst er að það mun aldrei standast enda er nýr völlur ennþá nánast á byrjunarreit, þrátt fyrir margra ára vinnu.

Síðustu endurbætur á stúkum í Laugardal voru gerðar árið 2007 og ekki er gert ráð fyrir nýjum velli í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2022-2026. Þegar áætlunin var kynnt sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra að völlurinn væri kominn of stutt á veg til að hafa hann með.

Innan við 200 miðar seldust á landsleikinn gegn Armeníu. Seldir miðar á Liechtenstein voru einnig örfáir en KSÍ fór þá leið að gefa miða í gríð og erg. Sögðu tólfunni að koma miðabunkum út. Íslenska landsliðið spilaði fimm heimaleiki með skömmu millibili í september og október.

Tólfan fékk það hlutverk að finna áhorfendur fyrir KSÍ
fréttablaðið/eyþór

Ítrekaðar breytingar á sóttvarnareglum hafa orsakað að áhorfendur vilja frekar vera grímulausir heima í stofu en taka þátt í leikþætti yfirvalda. Ásakanir um kynferðisbrot og slæmt umtal í kjölfarið fældu landsmenn einnig frá.

Alls komu 13 þúsund manns á þessa fimm leiki. Flestir á Liechtenstein, þar sem var nánast frítt fyrir alla og svo trekkti stórlið Þýskalands að rúmlega 3.500 manns.

Laugardalsvöllur tekur tæplega 9.800 manns í númeruð sæti, og þegar hann fylltist voru tekjur af seldum miðum um 30 milljónir króna, samkvæmt skýrslu KPMG um Laugardalsvöll.

Í sömu skýrslu er einmitt skoðuð svartasta spáin þar sem árangur og áhugi hrynur. Eðlilega var ekki gert ráð fyrir Covid en skýrslan var skrifuð árið 2018. Spáin er nánast búin að rætast en Ísland situr nú í 60. sæti heimslista FIFA og tekjur af heimaleikjum litlar sem engar.

Um tíma var íslenska landsliðið það besta í Skandinavíu og sat á topp 20 listanum með formann sem sá nýjan völl í hillingum. Vanda Sigurgeirsdóttir, nýr formaður KSÍ, þarf að leysa önnur vandamál áður en hún hugar að nýjum velli.

Síðan Geir Þorsteinsson, þáverandi formaður KSÍ, minntist á það fyrir hartnær áratug að í framtíðinni yrði svokölluð Þjóðadeild þar sem íslenska landsliðið myndi þurfa að byrja og enda keppnina á útivöllum, fór af stað vinna sem hefur gengið afar hægt. Það er vissulega búið að skrifa fjölmargar skýrslur, benda á hluti, skrifa fleiri skýrslur og stofna undirbúningsfélagið Þjóðarleikvang ehf.

Hlutverk félagsins er að undirbúa lokaákvörðun um endurnýjun Laugardalsvallar og í kjölfarið byggingu þeirra mannvirkja sem ákveðið verður að byggja.

Nokkur landslið hafa kosið að sleppa því að æfa á Laugardalsvelli degi fyrir leik en ríkjandi Heimsmeistarar Frakka voru kuldalegir á æfingu á vellinum.
fréttablaðið/ernir

Þjóðarleikvangur ehf. skilaði 17 milljóna króna tapi á síðasta rekstrarári en rekstrargjöld námu heilum 46 milljónum króna. Þjóðarleikvangur ehf. er í eigu ríkis, borgar og KSÍ. Félagið réði breska ráðgjafar­fyrirtækið AFL til að sinna valkostagreiningu fyrir nýjan völl. AFL telur að 15.000 manna leikvangur án þaks sé hagkvæmasti kosturinn, ef eingöngu er horft til beinna fjárhagslegra þátta.

Slíkur leikvangur með opnanlegu þaki myndi þó skila bestu heildarniðurstöðunni. Í júní hittist stjórn Þjóðarleikvangs á sérstökum aukaaðalfundi þar sem ákveðið var að næsta skref yrði að framkvæma markaðskönnun. Sagði KSÍ í fundargerð að sambandið vildi að niðurstaða málsins fengist í haust.

Í greiningu AFL voru fjórir valkostir skoðaðir auk viðskiptaáætlunar og mats á efnahagslegum þáttum: Að núverandi völlur verði að mestu leyti óbreyttur, en ráðist verði í lágmarksendurbætur og -lagfæringar.

Að Laugardalsvöllur verði endurbættur svo hann uppfylli kröfur og staðla UEFA og FIFA. Að byggður verði nýr 15.000 manna leikvangur, með opnanlegu þaki eða án þaks. Að byggður verði fjölnotaleikvangur með 17.500 sætum, með opnanlegu þaki eða án þaks.

Í skýrslu KPMG kemur fram að áætlað er að viðburðir aðrir en fótboltaleikir myndu skapa 23 prósent af tekjum leikvangsins. Heildartekjur fjölnota leikvangs eru þar áætlaðar 522 milljónir króna á ári.

Ljóst er að eitthvað þarf að gera í Laugardal. Samkvæmt verkfræðistofunni Mannviti, sem er hluti af teymi AFL, er völlurinn á undanþágu og þarf sérstakan viðbúnað vegna keppnisleikja á alþjóðlegum mótum.

Sú undanþága er að sjálfsögðu ekki eilíf og því raunveruleg hætta á að íslensku landsliðin muni þurfa að spila heimaleiki annars staðar en í Laugardal