Nike hefur séð sig til­neytt til að svara röngum full­yrðingum Mason Greenwood, sóknar­manns Manchester United eftir breytingar sem leik­maðurinn gerði á Insta­gram reikningi sínum um helgina þar sem hann sagði sig vera í­þrótta­mann á vegum Nike.

Á dögunum var greint frá því að á­kærur á hendur Greenwood, sem sneru meðal annars að meintri til­­­raun til nauðgunar, líkams­­­á­rásar og stjórnandi hegðunar á hendur fyrrum kærustu hans, hefðu verið látnar niður falla.

Málið komst á flug þegar að Harriet birti myndir á sam­fé­lags­miðlum sínum. Myndirnar voru af henni með sprungna vör auk annarra á­verka og við myndirnar skrifaði hún að það væri svona sem Mason Greenwood kæmi fram við hana.

Í kjöl­farið var Greenwood hand­tekinn en síðan látinn laus gegn tryggingu á meðan að lög­reglan rann­sakaði málið. Nú hefur Sak­sóknara­em­bætti bresku krúnunnar komist að þeirri niður­stöðu að sönnunar­gögn í málinu séu ekki nægjan­leg til þess að á­kæra Greenwood.

Í febrúar á síðasta ári, ekki svo löngu eftir að Greenwood hafði verið hand­tekinn, sendi Nike frá sér yfir­lýsingu þar sem fyrir­tækið sagði sam­starf sitt við leik­manninn lokið og að aldrei yrði gerður samningur við hann á nýjan leik.

Um ný­liðna helgi gerði Greenwood miklar breytingar á sam­fé­lags­miðla­reikningi sínum á Insta­gram. Hann fjar­lægði alla nema níu pósta og titlaði sig svo sem leik­mann Manchester United og í­þrótta­mann Nike.

Nike sá sig til­neytt til þess að svara þessum röngu full­yrðingum Greenwood.

„Mason Greenwood er ekki lengur Nike í­þrótta­maður,“ segir í yfir­lýsingu fyrir­tækisins og því fer sóknar­maðurinn þarna með rangt mál.

Greenwood hefur verið á mála hjá United síðan hann var sex ára en ekki er ljóst hver næstu skref verða hjá vinnu­veit­endum hans að svo stöddu.