Nike hefur séð sig tilneytt til að svara röngum fullyrðingum Mason Greenwood, sóknarmanns Manchester United eftir breytingar sem leikmaðurinn gerði á Instagram reikningi sínum um helgina þar sem hann sagði sig vera íþróttamann á vegum Nike.
Á dögunum var greint frá því að ákærur á hendur Greenwood, sem sneru meðal annars að meintri tilraun til nauðgunar, líkamsárásar og stjórnandi hegðunar á hendur fyrrum kærustu hans, hefðu verið látnar niður falla.
Málið komst á flug þegar að Harriet birti myndir á samfélagsmiðlum sínum. Myndirnar voru af henni með sprungna vör auk annarra áverka og við myndirnar skrifaði hún að það væri svona sem Mason Greenwood kæmi fram við hana.
Í kjölfarið var Greenwood handtekinn en síðan látinn laus gegn tryggingu á meðan að lögreglan rannsakaði málið. Nú hefur Saksóknaraembætti bresku krúnunnar komist að þeirri niðurstöðu að sönnunargögn í málinu séu ekki nægjanleg til þess að ákæra Greenwood.
Í febrúar á síðasta ári, ekki svo löngu eftir að Greenwood hafði verið handtekinn, sendi Nike frá sér yfirlýsingu þar sem fyrirtækið sagði samstarf sitt við leikmanninn lokið og að aldrei yrði gerður samningur við hann á nýjan leik.
Um nýliðna helgi gerði Greenwood miklar breytingar á samfélagsmiðlareikningi sínum á Instagram. Hann fjarlægði alla nema níu pósta og titlaði sig svo sem leikmann Manchester United og íþróttamann Nike.
Nike sá sig tilneytt til þess að svara þessum röngu fullyrðingum Greenwood.
„Mason Greenwood er ekki lengur Nike íþróttamaður,“ segir í yfirlýsingu fyrirtækisins og því fer sóknarmaðurinn þarna með rangt mál.
Greenwood hefur verið á mála hjá United síðan hann var sex ára en ekki er ljóst hver næstu skref verða hjá vinnuveitendum hans að svo stöddu.