Já vá,“ voru fyrstu við­brögð veður­fræðingsins Þor­steins V. Jóns­sonar, veður­fræðings hjá Veður­stofu Ís­lands þegar að frétta­ritari þuldi upp fyrir hann verður­spána fyrir Rot­her­ham svæðið á leik­degi Ís­lands og Frakk­lands á mánu­dag þar sem gert er ráð fyrir hita­tölum í kringum þrjá­tíu og sjö gráður.

,,Þetta eru svaka­legar hita­tölur sem verið er að spá á þessu svæði bæði fyrir mánu­daginn sem og þriðju­dag,“ segir Þor­steinn. „Það hefur verið að ganga yfir Evrópu við­varandi og ó­venju­leg hita­bylgja og til að mynda hafa verið gefnar út rauðar við­varanir í Portúgal sem og appel­sínu­gular við­varanir á Spáni vegna hita en hafa ber í huga að slíkt er ekki ó­vana­legt á þessum svæðum. Það er hins vegar sjald­gæft að sjá rauða hita­við­vörun gefna út á Bret­lands­eyjum.“

Að sögn Þor­steins er það farið að gerast nánast á hverju ári að upp komi hita­bylgja á borð við þessa í Evrópu þar sem hitinn fer yfir meðal­talið.

,,En þetta eru ein­stak­lega hlýir dagar þarna á mánu­dag og þriðju­dag á Bret­lands­eyjum og þar af­leiðandi þarna í og við Rot­her­ham þar sem leikurinn fer fram,“ segir Þor­steinn. „Klukkan sjö að kvöldi til þegar leikurinn fer af stað er enn verið að spá hita­tölum í kringum þrjá­tíu og sjö stig, sólin verður að vísu farin að lækka á lofti en samt sem áður miklum hita spáð.“

Fólk á svæðinu verði að huga ein­stak­lega vel að sér á slíkum dögum. ,,Fólk þarf að fara var­lega í svona hita. Bera á sig sólar­vörn, passa að drekka vel af vatni, skýla and­litinu með höttum og öðru slíku og halda sig í skugganum,“ segir Þor­steinn sem enn fremur ráð­leggur Ís­lendingum á svæðinu að inn­byrða ekki mikð af á­fengi.

,,Menn þorna hratt upp við neyslu á­fengis en kannski erfitt að koma því að hjá fólki sem er á leið á völlinn á mánu­daginn,“ segir Þor­steinn og hlær.