Hlauparinn Hlynur Andrésson bætti um nýliðna helgi Íslandsmetið í maraþoni þegar hann hljóp á tímanum 2:13:37 í Dresden í Þýskalandi. Hlynur freistaði þess að hlaupa undir Ólympíulágmarki, sem er 2:11:30, í þessu fyrsta maraþonhlaupi sínu. Hlynur var þarna að bæta Íslandsmet Kára Steins Karlssonar frá árinu 2011, sem var 2:17:12.

Með þessu meti eru Íslandsmet Hlyns utanhúss nú orðin sjö frá vegalengdunum 3.000 metrum til heils maraþons, sem er 42 kílómetrar. Fram undan hjá honum er að freista þess að komast á Ólympíuleikana, hann líti helst til þess að komast inn á leikana í 10.000 metra hlaupi.

„Það var súrsæt tilfinning sem ég fann fyrir þegar ég kom í mark og frétti hver tíminn varð. Það var gott að vita af því að ég gæti hlaupið á jafn góðum tíma og ég gerði en á sama tíma fannst mér ég geta hafa gert enn betur. Ég tel að ég hafi líkamlega hæfileika til þess að hlaupa á undir 2:10,00 og þar af leiðandi ná Ólympíulágmarki,“ segir Hlynur um hlaupið í Dresden um helgina.

„Mér leið mjög vel fyrstu 30 kílómetrana og ég hélt á þeim tímapunkti að ég myndi ná Ólympíulágmarkinu. Svo hættu hérarnir að hlaupa, ég lenti á vegg líkamlega og aðstæður voru nokkuð erfiðar vegna þó nokkurs vinds.

Af þeim sökum hægðist á mér og því fór sem fór. Það er hins vegar klárt mál að ég mun halda áfram að hlaupa maraþonhlaup og freista þess að bæta tíma minn þar. Ég mun hins vegar ekki hlaupa fleiri maraþonhlaup fyrir Ólympíuleikana í Tókýó í ágúst,“ segir hann enn fremur um áform sín hvað maraþonhlaup varðar.

„Nú tekur við tveggja vikna frí frá æfingum þar sem ég ætla að nýta tímann og koma heim til þess að heimsækja vini og fjölskylduna. Þar á eftir mun ég svo setja upp plan með þjálfaranum mínum fyrir hlaupasumarið.

Það mun litast af því að ég ætla að leggja áherslu á að komast á Ólympíuleikana í 10.000 metra hlaupi. Það verður klárlega mjög erfitt þar sem kröfurnar til þess að komast inn á leikana eru orðnar mun meira en þær voru en ég ætla samt að reyna. Næsta stóra mótið er 10.000 metra hlaup á Evrópubikarmótinu í Birmingham í byrjun júní,“ segir hlauparinn um framhaldið.