Stundum eru fótboltaguðirnir bara einfaldlega í góðu skapi þegar deildarkeppnum er raðað upp. Á morgun verður nefnilega svakalegur sunnudagur þar sem Derby d’Italia er spilaður á Ítalíu, El Classico á Spáni, Le Classique í Frakklandi og meira að segja Pakistan mætir Indlandi í krikket.

Það verða þó allra augu á Leikhúsi draumanna í Manchester þar sem erkifjendurnir í Liverpool mæta í heimsókn.

Starfið undir

Starf Ole Gunnar Solskjær, stjóra Manchester United, hangir á bláþræði. Hann náði vissulega að kreista fram úrslit í vikunni sem er svo sem gömul saga og ný því yfirleitt þegar hann þarf að ná í úrslit þá tekst honum það.

En það er eitthvað í loftinu sem segir að hann sé ekki rétti stjórinn fyrir liðið. Hann virðist ekki ná fram því besta úr leikmönnum og það má lesa ýmislegt í ummæli Paul Pogba um að eitthvað þurfi að breytast.

Pressan er aðeins minni á Solskjaer eftir sigurinn gegn Atalanta.
fréttablaðið/getty

Leikplanið er yfirleitt ekki beisið. Solskjær virðist vona að einhver af stórstjörnum hans búi eitthvað til. Geri eitthvað. Ekkert endilega eitthvað sem er planað heldur bara eitthvað. Varnarleikurinn er heldur ekki beisinn.

Manchester United hefur nú fengið á sig fjölmörg mörk úr föstum leikatriðum – sem flestir eru sammála um að þá er eitthvað ekki í lagi á æfingasvæðinu. Hlutirnir eru fljótir að breytast í fótbolta og vissulega fór Solskjær með liðið í 29 leiki án þess að tapa á útivelli.

En skyndilega hefur liðið tapað 10 stigum og október er ekki búinn. Meistarar hafa tapað í yfirleitt um 20 stigum síðustu ár, sumir meira að segja minna.

Árangur Solskjær eftir 163 leiki

Sigrar: 90

Jafntefli: 36

Tap: 37

Sigurprósenta: 54,9%

Mörk skoruð: 302

Mörk fengin á sig: 170

Manchester United gegn Liverpool

Leikir 207

Sigurleikir Manchester 81

Sigurleikir Liverpool 68

Jafntefli 58

Smurstöðin Klopp

Jurgen Klopp er í öðru sæti í deildinni með Liverpool og kemur inn í leikinn eftir alveg svakalega góða frammistöðu gegn Watford.

Þar virkaði Liverpool sem vel smurð vél. Það er erfitt að sjá tapleik í kortunum þegar liðið spilar af slíkum krafti.

Klopp bauðst að taka við Manchester United þegar hann var með Borussia Dortmund árið 2014 en hefur sagt að það hafi ekki verið rétti tímapunkturinn.

Klopp fagnar með liðsmönnum sínum eftir 3-2 sigur á Atletico í vikunni
fréttablaðið/getty

Hann tók við Liverpool ári síðar og hefur umbreytt liðinu í eitt skemmtilegasta lið Evrópu.

Liverpool spilaði gegn Atlet­ico Madrid í vikunni í Meistaradeildinni þar sem Mo Salah, hver annar, skoraði eitt marka liðsins.

Salah er búinn að spila þannig það sem af er að hann er besti leikmaður heims um þessar mundir. Og hann er að renna út á samningi. Er sagður vilja 400 þúsund pund á viku næstu árin.

Það er í raun ótrúlegt að það þurfi einhvern samningafund. Enda hvert ætti skrefið að vera frá Liverpool?

Það eru nefnilega fá lið betri í dag.

Árangur Klopp eftir 163 leiki

Sigrar: 88

Jafntefli: 44

Tap: 31

Sigurprósenta: 54%

Mörk skoruð: 333

Mörk fengin á sig: 174

Titlar Manchester United

Deildartitlar 20

Bikarmeistarar 12

Samfélagsskjöldurinn 21

Titlar innanlands 58

Evróputitlar 6

Titlar alls 66

Titlar Liverpool

Deildartitlar 19

Bikarmeistarar 7

Samfélagsskjöldurinn 15

Titlar innanlands 50

Evróputitlar 13

Titlar alls 64