Skatturinn hefur sett á uppboð hjá Sýslumanninum á Suðurlandi sumarbústað í eigu knattspyrnumannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar. Fyrst var greint frá á vef Vísis.

Í frétt Vísis kemur fram að bústaðurinn sé staðsettur í Grímsnes- og Grafningshreppi og að því fari uppboðið fram hjá sýslumanni á Selfossi. Það fer fram formlega þann 31. Mars, eða næsta fimmtudag. Eftir uppboðið verður ákveðið hvenær framhaldssala fer fram en eignin er boðin upp til að greiða upp skuldir sem hvíla á eigninni.

Gylfi Þór er í farbanni í Bretlandi þar til um miðjan apríl en hann sætir þar rannsókn vegna gruns um að hafa brotið kynferðislega á ungmenni. Hann var handtekinn í júlí á síðasta ári og húsleit gerð á heimili hans. Honum var svo sleppt gegn tryggingu og hefur verið í farbanni síðan.

Fyrir handtökuna spilaði hann með enska liðinu Everton en liðið hefur gefið út að hann muni ekki spila aftur með liðinu fyrr en rannsókn lögreglu lýkur.