Keppnin innihélt allt það besta fyrir kappakstursáhugamenn. Drama, rauð flögg og ótrúlega spennu á milli Lewis Hamilton og Max Verstappen sem endaði í 2. sæti. Úrslit gærkvöldsins gera það að verkum að Hamilton og Verstappen fara jafnir að stigum inn í síðustu keppni tímabilsins sem fer fram í Abu Dhabi um næstu helgi.

,,Við erum að fara inn í lokamótið með hatramma andstæðinga jafna á stigum. Við gætum ekki fundið betri uppskrift að þessum lokametrum á mótinu. Það var heitt í lýsendaboxinu hjá okkur í gær, súrefnislaust og púlsinn rauk upp úr öllu valdi," segir Kristján Einar í samtali við Fréttablaðið í dag. Myndskeið úr lýsendaboxi Kristjáns Einars og samstarfsmanns hans, Braga Þórðarsonar frá keppninni í gær, segir allt sem segja þarf um spennuna sem þar ríkti.

Hamilton hóf keppni gærkvöldsins á rásspól og hélt forystunni fyrstu hringi keppninnar. Á tíunda hring endaði bíll Micks Schumacher í öryggisveggnum, öryggisbíll var kallaður út á meðan bíll Schumachers var fjarlægður og Hamilton ákvað að taka þjónustustopp og skipta um dekkjagang, það gerði Verstappen ekki.

Mick Schumacher stendur yfir bíl sínum
GettyImages

Útafakstur Schumachers varð til þess að á endanum var rauðum flöggum veifað og hlé var gert á keppninni. Verstappen var þá kominn í 1. sæti keppninnar og gat skipt um dekkjagang á þjónustusvæðinu án þess að eiga hættu á að missa sæti sitt.

Kristján Einar segir þetta hafa verið ótrúlega keppni. ,,Hún fer rólega af stað en á tíunda hring klessir Schumacher bílinn sinn, rauða flaggið kemur út og eftir það varð þetta eldfim keppni. Þetta var alltaf að fara springa. Þetta var viðburðarríkasta og dramatískasta keppni sem ég man eftir, frábær fyrir sögulínu Formúlu 1 en þetta var ekki besti kappakstur sem ég hef séð en þetta var ein skemmtilegasta keppni sem ég hef horft á."

Ræst var á ný á 15 hring keppninnar. Hamilton var hraðari af stað en Verstappen og erkifjendurnir enduðu á að vera hlið við hlið inn í fyrstu beygju.

Verstappen þurfti að sneiða út úr fyrstu beygju til þess að halda forystusæti sínu og fyrir aftan fremstu menn urðu árekstrar sem urðu til þess að rauðum flöggum var veifað á ný. Að auki var Verstappen gert að gefa eftir sæti sitt.

GettyImages

Hann ræsti því fyrir aftan Esteban Ocon og Hamilton í þriðja sæti þegar að keppnin var ræst af stað á ný á sautjánda hring.

Verstappen náði hins vegar á magnaðan hátt að koma sér upp í fyrsta sæti fyrir fyrstu beygju hringsins, Hamilton komst skömmu síðar fram úr Ocon og ljóst var að forystusauðirnir í stigakeppni ökuþóra myndu heygja einvígi.

GettyImages

Á 37. hring var tækifæri fyrir Hamilton til þess að taka fram úr Verstappen í fyrstu beygju. Verstappen varðist hins vegar af hörku, of mikilli hörku samkvæmt dómurum keppninnar og honum var gert að hleypa Hamilton fram úr sér.

,,Þessi gæji er ruglaður," mátti heyra Hamilton segja eftir baráttuna við Verstappen í fyrstu beygju.

Það gekk hins vegar ekki átakalaust fyrir Hamilton að komast fram úr þegar Verstappen hægði á bíl sínum undir lok 37. hrings til að hleypa Hamilton fram fyrir sig.

Hamilton endaði með því að keyra aftan á Verstappen en þó þannig að báðir bílar gátu haldið áfram keppni og eftir þetta var sigur Hamilton vís.

,,Þetta er rosalega tvísýnt atvik. Það eru ástæður fyrir því að dómararnir dæma Verstappen brotlegan þarna. Hann hægir gríðarlega mikið á sér og er að reyna stilla þessu upp taktískt fyrir sig með því að hleypa Hamilton fram úr á þessum stað og vera svo innan við sekúndu fyrir aftan hann til að geta nýtt sér DRS svæðið. Mér fannst þetta galið hjá þeim báðum," segir Kristján Einar, umsjónarmaður Formúlunnar á Viaplay og hlaðvarpsþáttarins Pitturinn.

Hamilton og Verstappen eru nú jafnir að stigum fyrir lokakeppni tímabilsins sem fer fram í Abu-Dhabi um næstu helgi, sá sem hlýtur fleiri stig þar mun tryggja sér heimsmeistaratitilinn í Formúlu 1.

Kristján segir það augljóst af þessari keppni að dæma að Verstappen var sá sem mátti tapa einhverju. ,,Hann setur sig og bílinn sinn í hættu fjórum eða fimm sinnum í keppninni. Formúlan heldur hins vegar áfram að gefa. Spennan fyrir þetta lokamót er náttúrulega óbærileg. Vikan sem er nú fram að keppni og sálfræðistríðið sem verður í gangi verður ótrúlegt. Það er komið miklu meira en smá pirringur í bæði Mercedes og Red Bull Racing, þetta er einhver hatrammasta barátta sem ég hef séð," segir Kristján Einar, umsjónarmaður Formúlunnar á Viaplay og hlaðvarpsþáttarins Pitturinn í samtali við Fréttablaðið í dag.

,,Fyrir mér er þetta ekki Formúla 1"

Forysta Max Verstappens í stigakeppni ökuþóra er nú orðin að engu fyrir lokakeppnina. Hann var valinn ökuþór dagsins kappakstursáhugamönnum. ,,Áhorfendurnir eru allavegana með það á hreinu hvernig eigi að keppa vegna þess að það sem átti sér stað hérna er ótrúlegt," sagði Max í viðtali eftir keppni gærkvöldsins.

,,Ég er bara að reyna keppa en þessi íþrótt snýst meira um refsingar en kappakstur þessa dagana. Fyrir mér er þetta ekki Formúla 1 en það er gott að áhorfendur nutu þessa. Ég gaf allt mitt í þetta í dag en ég var ekki nægilega fljótur, ég er þó hins vegar ánægður með að hafa landað öðru sæti."

Varðandi atvikið undir lok 37. hringar segist Verstappen bara hafa hægt á sér. ,,Ég vildi hleypa honum fram úr mér og staðsetti mig hægra megin á brautinni, hann vildi ekki taka fram úr og að lokum varð snerting. Ég skil eiginlega ekki hvað gerðist þarna."

Max Verstappen, ökuþór Red Bull Racing
GettyImages

,,Hann fór yfir strikið"

Hamilton hefur náð að saxa hægt og bítandi á foystu Verstappens undanfarnar keppnir og nú eru þeir jafnir á toppi stigakeppninnar. Hann segir Verstappen hafa farið yfir strikið í gærkvöldi.

,,Ég þurfti bara að halda ró minni á meðan á keppninni stóð, það var mjög erfitt. Ég hef keppt við marga ökuþóra í gegnum tíðina, ólíka karaktera. Sumir þeirra eiga það til að fara yfir strikið, þeir hugsa ekki mikið út í þær reglur sem við keppum eftir," sagði Hamilton í viðtali eftir keppni gærkvöldsins.

Hann segir Verstappen fara alltof oft yfir strikið. ,,Ég hef þurft að forðast svo margra árekstra við þennan gæja."

Sir Lewis Hamilton, ökuþór Mercedes
GettyImages