Talið er að Alisson Becker markvörður Liverpool gæti leikið með liðinu áður en septembermánuði lýkur en hann varð fyrir kálfameiðslum í fyrsta deildarleik keppnistímabilsins á móti Norwich City.

Alisson æfði með sjúkra- og styrktarþjálfurum á Melwood-æfingasvæðinu í landsleikjahléinu sem er nýlokið. Nú hefur hann fengið leyfi frá sjúkrateymi liðsins að byrja að æfa með liðinu á nýjan leik.

Næsti leikur Liverpool er gegn Newcastle United í fimmtu umferð ensku úrvalsdeildarinnar en liðsfélagar Alisson hafa haft betur fyrstu fjórum leikjum deildarinnar.

Það er nóg að gera hjá Liverpool í september en þriðjudaginn í næstu viku hefur liðið titilvörn sína í Meistaradeild Evrópu með því að mæta Napoli í riðlakeppni keppninnar.

Þar á eftir mætir liðið Chelsea í deildinni, Milton Keynes Dons í enska deildarbikarnum og loks Sheffield United í deildarleik áður en september rennur sitt skeið.

Alisson Becker liggur hér meiddur á vellinum í leiknum gegn Norwich City.
Fréttablaðið/Getty