Evrópska handboltasambandið staðfesti í dag breytt fyrirkomulag um að einstaklingar sem greinast með Covid-19 á EM í handbolta þurfi aðeins að vera í fimm daga í einangrun og sýna fram á tvö neikvæð próf.

Handball-Planet greindi frá þessu fyrr í dag.

Með því er ekki lengur krafist að smitaðir einstaklingar fari í tveggja vikna sóttkví ef þeir greinast smitaðir.

Hafi þeir sýnt fram á tvö neikvæð sýni er leikmönnum heimilt að koma aftur til móts við liðið fimm dögum eftir staðfest smit.

Þegar vika er í fyrsta leik á EM í Ungverjalandi og Slóvakíu eru flest lið að glíma við smit í leikmannahópum sínum. Fyrir vikið taka leikmannahóparnir stöðugum breytingum á síðustu mínútu.

Tveir leikmenn íslenska hópsins greindust með Covid-19 í síðustu viku en íslenska liðið hefur verið í búbblu til að verja leikmennina frá frekari smitum undanfarna daga.

Um leið var ákveðið að fjölga leikmönnum sem liðin gætu bætt við leikmannahópinn á síðustu stundu.