Fyrsta umferð í undankeppni Sambandsdeildar UEFA hefst í næstu viku. Breiðablik mætir Santa Coloma frá Andorra ytra í fyrri leik liðanna á fimmtudag. Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Blika, er brattur fyrir þátttöku liðsins í Evrópukeppninni í ár en horfir aðeins á einn leik í einu.

„Þetta leggst virkilega vel í mig. Þetta var skemmtileg reynsla í fyrra og við erum bara fullir tilhlökkunar að takast á við Andorra-mennina,“ sagði Óskar við Fréttablaðið.

Í fyrra fór Breiðablik alla leið í þriðju umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar. Þar datt liðið naumlega út gegn Aberdeen. Óskar segir að það þurfi margt að ganga upp til að liðið fari lengra en í fyrra, til dæmis heppni þegar dregið verður í næstu umferðir keppninnar, komist Blikar þangað. „Við teljum okkur eiga góða möguleika gegn Santa Coloma en svo verðum við að passa okkur að fara ekki fram úr okkur. Við þurfum að byrja á leiknum úti og taka þetta svo þaðan. En það er alveg ljóst að við getum mætt fullir sjálfstrausts í þessa leiki.“

Frá leik Breiðabliks við Aberdeen í fyrra
Fréttablaðið/Getty Images

Blikar mun sigurstranglegri en ekkert vanmat

Óskar segist gera sér grein fyrir því að Breiðablik sé sigurstranglegra liðið gegn Santa Coloma en tekur þó fram að ekkert vanmat megi vera til staðar í leikmannahópnum. Minnti hann á það þegar Víkingur vann aðeins 1-0 sigur á Inter Escaldes, andorrsku meisturunum í síðustu viku. „Eina markmiðið er að fara í gegnum þá og vinna þá. Við sáum það hins vegar í forkeppni Meistaradeildarinnar, þar sem Víkingar mættu meisturunum, að þessi lið eru sýnd veiði en ekki gefin. Það er þannig í Evrópu að menn þurfa að klára andstæðingana, sama hversu lélegir eða góðir þeir eru á pappír. Við þurfum að sjá til þess að við náum okkar bestu frammistöðu. Þá erum við örugglega í ljómandi fínum málum. En við getum ekki mætt þarna og haldið að við getum gert þetta með vinstri. Það er hægasta leiðin til glötunar.“

Sigri Blikar Santa Coloma í tveggja leikja einvígi verður næsti andstæðingur FK Buducnost Podgorica frá Svartfjallalandi eða KF Llapi frá Kósóvó. „Við reynum að horfa ekkert rosalega langt fram í tímann. Bæði þessi lið eru góð og auðvitað tökum við bara á því þegar kemur að þeirri brú. Auðvitað stefnum við að því að gera jafnvel og ef ekki betur en í fyrra. En það veltur á því að frammistaðan sé góð og að menn séu sæmilega heppnir með hvernig dregst.“

Blikar fagna marki í Evrópuleik síðasta sumar
Fréttablaðið/Getty Images

Leiðin í riðlakeppni liggur í gegnum Meistaradeild

Óskar kveðst bjartsýnn á að íslenskt félagslið komist í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar fljótlega. Hann telur þó líklegt að það verði í gegnum Meistaradeild Evrópu. Sigurvegarar Bestu deildarinnar fara inn á svokallaða meistaraleið í undankeppni Evrópukeppnanna árið eftir. Það þýðir að liðið mætir aðeins meisturum frá öðrum löndum. Þar eru færri félög og oft frá smærri löndum, sem gefur aukin tækifæri. „Ég held að leið íslensku liðanna muni að öllum líkindum liggja í gegnum Meistaradeildina, fara þessa leið sem Víkingar eru í núna, meistaraleiðina (e. champions path). Við erum á almennu leiðinni (e. main path),“ sagði Óskar. Hann benti á að lið á borð við Flora Tallin, Mura og Lincoln Red Imps hafi komist í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar í fyrra í gegnum þá leið sem Víkingur er á núna.

Leiðin fyrir liðin á almennu leiðinni er erfiðari og segir Óskar til að mynda að þrátt fyrir að Breiðablik hefði unnið Aberdeen í þriðju umferð í fyrra, hefði verið erfitt fyrir liðið að komast í gegnum umferðina á eftir einnig og inn í riðlakeppnina. „Ef við hefðum unnið Aberdeen, og við hefðum verið mjög nálægt því ef við hefðum fengið heimaleikinn á Kópavogsvelli, þá hefðum við fengið Quarabag frá Aserbaídjan. Það eru alvöru Evrópulið, með einhverja hundrað leiki. Þeir fóru í 16-liða úrslitin í ár í Sambandsdeildinni. Við hefðum ólíklega átt mikla möguleika í þá á þeim tímapunkti.“

Sem fyrr segir telur Óskar þó að það muni fljótlega koma að því að íslenskt félagslið komist í Evrópukeppni. „En ég hef alveg trú á því á næstu árum að eitt af þeim liðum sem vinnur titilinn og fer þá leið, stendur sig vel og verði heppið með andstæðinga, eigi mjög góða möguleika á að komast í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.“

Breiðablik er langefst í Bestu deild karla. Óskar telur gengi liðsins í deildinni getað hjálpað í Evrópuleikjunum. „Gott gengi hjálpar upp á sjálfstraustið. Það gefur okkur svo sem ekkert en veitir mönnum trú og það er frábært veganesti inn í þessa leiki.“