Daniel Sturridge skrifaði í dag undir hjá tyrkneska félaginu Tabzonspor og kemur til félagsins frítt eftir að samningur hans hjá Liverpool var ekki endurnýjaður.

Hjá Tabzonspor hittir Sturridge fyrir fyrrum liðsfélaga sinn frá Chelsea, nígerska miðjumanninn John Obi Mikel.

Sturridge hefur einnig leikið með Manchester City, Bolton og WBA á Englandi ásamt því að leika 26 leiki fyrir enska landsliðið.

Sturridge var ekki boðið nýr samningur á Anfield og yfirgaf hann því Liverpool í sumar eftir sex og hálft ár í Bítlaborginni.

Fyrstu árin í Liverpool reyndust Sturridge vel þegar hann myndaði ógnarsterkt sóknartvíeyki með Luis Suarez en hann hefur lítið sést inn á vellinum undanfarin ár vegna meiðsla.

Framherjinn var orðaður við lið í Bandaríkjunum, Tyrklandi og Katar og er nú komið á hreint með hvaða liði hann leikur næstu árin.