Íslenski ólympíufarinn og skíðakappinn Sturla Snær Snorrason, er laus úr einangrun í Kína eftir að hafa greinst smitaður af Covid-19. Sturla lýsir því í samtali við Fréttablaðið í dag hvernig hann hefur búið við óboðlegar aðstæður á meðan að einangruninni stóð á gámasjúkrahúsi með litla sem enga tengingu við umheiminn.

,,Geðheilsan hefur verið betri en ég er að jafna mig," sagði Sturla Snær í samtali við Fréttablaðið í dag er hann var spurður hvernig líðan hans væri.

Sturla Snær greindist smitaður af Covid-19 fyrir rétt tæpri viku í Kína. ,,Ég fæ jákvæða niðurstöðu úr PCR-prófi og um leið er hringt í mig og spurt hvort að ég sé með einkenni. Ég var á þessum tíma með hausverk, beinverki og glímdi við máttleysi."

Ég veit ekki hvað maður þarf að gera til þess að eiga svona skilið

Hann lýsir því síðan hvernig hann var færður inn í sérstakt sóttkvíarherbergi í ólympíuþorpinu. ,,Ég stóð í þeirri meiningu að ég myndi dvelja þar þangað til að ég yrði orðinn góður á ný. Reglur í Kína kveða hins vegar á um það að þar sem að ég var með einkenni þyrfti ég að vera fluttur á sjúkrahús."

Fluttur í gám

Sturla var því færður yfir í sjúkrabíl þar sem honum var keyrt á sjúkrahús sem hafði verið sett saman úr gámaeiningum.

,,Þetta voru gámaeiningar þar sem covid-smituðu fólki var hent inn. Maður liggur þarna inni með spítala nettenginguna sem er ekki upp á marga fiska, þá bjóða kínversk stjórnvöld heldur ekki upp á þessa hefðbundnu samfélagsmiðla eins og við þekkjum heima. Það var semsagt mjög lítið af afþreyingarefni sem ég gat nýtt mér," sagði Sturla Snær í samtali við Fréttablaðið í dag.

Sturla var einn af fánaberum Íslands á opnunarhátið Vetrarólympíuleikanna í Peking
GettyImages

Maturinn ekki mönnum bjóðandi

Sturla lýsir því í samtali við Fréttablaðið hvernig maturinn sem boðið var upp á sjúkarhúsinu hafi valdið því að hann vildi helst ekki borða. Afreksíþróttafólk þarf að hugsa jafn mikið um næringuna og æfingar og því hlýtur það að vera ansi mikið högg að geta ekki nærst eins og maður er vanur.

,,Þessi matur sem var borinn fram í þessum gámi var ekki mönnum bjóðandi. Það var verið að gefa mér kaldar pulsur og majónes í öll mál og ég eiginlega missti löngunina í að borða. Síðan gerði ég nú tilraun til þess að biðja um kaffibolla en það var ekki einu sinni möguleiki."

,,Ég veit ekki hvað maður þarf að gera til þess að eiga svona skilið en maður getur ekki gert sér það að hanga á þessu lengi. Nú þarf maður bara að koma sér áfram í næsta verkefni og gleyma þessu," sagði Sturla Snær í samtali við Fréttablaðið í dag.

Sturla Snær á að keppa í stórsvigi á sunnudaginn
GettyImages

Tekur ákvörðun um framhaldið á morugn

Maður getur rétt ímyndað sér hversu mikið högg það getur verið fyrir íþróttamann á borð við Sturlu sem er á Ólympíuleikunum, stærsta sviði íþrótta, að vera allt í einu settur í einangrun.

,,Ég get alveg viðurkennt það að ég var orðinn nokkuð grillaður þarna inni í þessu búri. Maður verður bara einhvernveginn að tækla eftirköstin af þessu. Ég ætla að byrja á því að reyna sofa vært í nótt, losa mig við þessa vondu drauma og rífa mig síðan upp og halda áfram með það sem ég kom hingað til að gera."

Sturla segist lítið vita á þessari stundu hversu mikil áhrif einangrunin hafi haft á líkamlegt form hans. ,,Ég hef ekki fengið neinn tíma til þess að kanna úthaldið hjá mér. Ég reyndi að gera einhverjar heimaæfingar í þessum gámi einn daginn en varð mjög fljótt úrvinda af smá hreyfingu. Ég fer í fjallið á morgun, ætla að taka einhverjar beygjur og verð eiginlega bara að taka ákvörðun um framhaldið eftir það."

Sturla segir aðbúnaðinn hvað þessa hlið Ólympíuleikanna hafa komið sér á óvart. ,,Já þetta kom mér á óvart. Ólympíuþorpið sjálft, skíðasvæðið og öll íþróttasvæðin hér eru rosalega vel gerð. Ég hef samanburð frá Ólympíuleikunum í Suður-Kóreu árið 2018 og get sagt að þetta er miklu flottara en þar. Ég er í raun og veru hissa á því að það hafi ekki verið gert betur varðandi þessa hlið leikana er viðkemur Covid-19. Kínverjar eru að halda Ólympíuleikana í miðjum faraldri en það lítur bara þannig út eins og þeir hafi ekki gert ráð fyrir því að fólk myndi smitast hérna, sem þeir hefðu átt að gera."

Sturla á að keppa í stórsvigi á sunnudaginn og svigi þann 16. febrúar næstkomandi.