Sturla Snær Snorrason, einn af keppendum Íslands á Vetrarólympíuleikunum í Peking, er laus úr einangrun eftir að hafa fengið jákvætt sýni í kórónaveiruskimun á dögunum.

Hann er samkvæmt ÍSÍ kominn í sóttkví og getur því æft og undirbúið sig fyrir keppni.

Sturla á að keppa í stórsvigi á sunnudaginn og svigi í næstu viku en til þess að mega keppa á leikunum þarf að sýna fram á neikvætt próf. Niðurstöður PCR-prófa eru ekki enn orðin neikvæð, en eru á réttri leið.

Kemur fram í tilkynningu frá ÍSÍ að Sturla hafi verið fluttur á sjúkrahús í Peking eftir að hann var með einkenni Covid-19 sjúkdómsins.