Landsliðsmaðurinn Sturla Snær Snorrason hefur ákveðið að leggja skíðin á hilluna en hann hefur farið fyrir Íslands hönd á síðustu tvo Vetrarólympíuleika. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skíðasambandi Íslands.

Sturla Snær sem er fjórfaldur Íslandsmeistari í svigi og tvöfaldur Íslandsmeistari í stórsvigi keppti í báðum greinum á Ólympíuleikunum í PyeongChang en aðeins í svigi í Beijing eftir að hafa greinst með Covid-19 fyrir keppnina í stórsvigi.

Fram kemur á vef Skíðasambandsins að hann hafi tíu sinnum komist á verðlaunapall á alþjóðlegu FIS-móti og keppti fjórum sinnum á HM fullorðina.

Hann var fánaberi Íslands á Ólympíuleikunum í Peking.