Stúlknaliðið átti gott mót og fór inn í úrslitin í þriðja sæti með 50.175 stig. Ísland endaði rétt á eftir Bretunum sem voru í öðru sæti með 50.275 en breskir hópfimleikar hafa verið á mikilli uppleið síðustu ár.
Svíarnir sem eru helsti keppinautur Íslands í hópfimleikum voru efstir inn í úrslitin með 53.650 stig en stúlknaliðið á nóg inni til að blanda sér í baráttuna um titilinn sem fer fram á föstudaginn.
Úrslit hjá blandaða unglingalandsliðinu voru ekki ljós þegar Fréttablaðið fór í prentun í gær.
Það er ljóst að stúlknaliðinu líður best undir pressu, en eftir smávægis örðugleika á lokaæfingunni í gær byrjuðu þær mótið af miklum krafti á trampólíni. Flugu þær höfðinu hærra en aðrir keppendur og var í raun eina vandamálið þeirra að yfirsnúa ekki stökkin sín eftir of mikla hæð.
Stór skref, eitt fall og frádráttur fyrir liðsumferðina gerði það að verkum að einkunn liðsins var í lægra lagi, en stúlkurnar fengu 14,8 á trampólíni.
Stúlknalandsliðið er með hæsta erfiðleikastigið í sínum flokki á trampólíni en dómarar draga síðan frá þeirri einkunn eftir framkvæmd. Þær eiga því nóg inni á trampólíni til að saxa á forskot Svíanna á föstudaginn.
Stúlkurnar létu slæma einkunn á trampólíni ekkert á sig fá og fóru yfir á gólfið og gerðu frábæra æfingu. Fengu þær 21,075 í einkunn fyrir gólfæfingar sínar sem var hæsta einkunn dagsins á gólfinu.
Þær höfðu hins vegar ekki nóg inni í tankinum til að fylgja því eftir á dýnunni og urðu nokkrar slæmar lendingar dýrkeyptar. Fékk liðið 14,4 á dýnu, sem er undir getu.
Stúlkurnar fá annað tækifæri til að bæta sig í úrslitunum, en þær eiga nóg inni til að sækja hart að Svíunum.
Alls keppa níu lönd í unglingaflokki og fóru sex lönd áfram í úrslitin í gær. Ásamt Íslandi munu Svíþjóð, Bretland, Finnland, Tékkland og Lúxemborg keppa til úrslita á föstudaginn.
Fjölmargir Íslendingar hafa lagt leið sína til Portúgals og heyrðist vel í þeim þegar íslensku liðin stigu inn á sviðið. Það er alveg ljóst að stemningin hjá Íslendingunum í Portúgal mun bara stigmagnast þegar líður á mótið.
Fjórtán lönd keppa á EM í ár en tvö stórveldi í hópfimleikum, Danmörk og Noregur, ákváðu að senda keppendur ekki í ár vegna Covid.
Allir keppendur, þjálfarar og blaðamenn eru skimaðir á mótsstað og hafa ekki borist neinar upplýsingar um smit meðal keppenda enn sem komið er.
Undankeppni í fullorðinsflokki fer síðan fram í dag en karla- og kvennalandslið Íslands mæta þar til leiks. Bæði liðin áttu virkilega góða lokaæfingu í keppnishöllinni í gær. Ísland hefur ekki sent karlalandslið á EM í hópfimleikum í næstum heilan áratug.
Strákarnir í landsliðinu eru hins vegar voða lítið að hugsa um það og fóru þeir í gegnum lokaæfinguna í gær eins og vanir menn. „Stemningin í hópnum er bara geggjuð,“ sagði Helgi Laxdal Aðalgeirsson, einn af lykilmönnum Íslands í liðinu, eftir lokaæfinguna í gær.
Björn Björnsson, yfirþjálfari allra landsliðanna ásamt Hrefnu Þorbjörgu Hákonardóttur, var mjög ánægður með frammistöðu liðanna í gær, þegar Fréttablaðið náði af honum tali.
Kvennalandsliðið mun líkt og fyrri ár eiga harða keppni við sænska landsliðið um Evrópumeistaratitillinn.
Undankeppnin í dag mun gefa tóninn fyrir úrslitin á laugardaginn og virtust stelpurnar tilbúnar í slaginn í gær. Undankeppni kvenna hefst klukkan 16.30 og verður hægt að horfa á mótið í beinni á frettabladid.is