Stúlknalið ÍR í 11 ára flokki neitaði ð taka við Íslandsmeistaratitlinum og skildi gullmedalíurnar eftir á gólfinu þegar þær gengu út. Vísir greindi fyrst frá.

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, staðfesti í samtali við Fréttablaðið að sambandið væri að rannsaka málið og virtist Guðmundur Óli Björgvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar ÍR, gerði hið sama.

Samkvæmt frétt Vísis las leikmaður ÍR upp yfirlýsingu þar sem þær neituðu að taka við verðlaununum frá KKÍ eftir að hafa verið synjað að mæta strákum í vetur. Félagið hafi óskað eftir því en því hafi verið synjað. Eftir það hafi þær tekið medalíurnar af hálsi sínum og gengið á brott.

Þá kemur fram að mikil óánægja sé innan foreldrahóps leikmanna ÍR eftir atvikið þar sem ekki hafi allir verið á eitt sammála um þennan gjörning.

„Ég get staðfest að það hafa einhver börn verið dregin úr flokknum vegna þessarar uppákomu sem var hræðileg. Okkur finnst hræðilegt að þetta hafi gerst. Þetta mál mun fá mjög alvarlega umræðu hjá okkur,“ sagði Guðmundur Óli, formaður körfuknattleiksdeildar ÍR, í samtali við Vísi.