Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segist vita að Mohamed Salah, stjörnuleikmaður liðsins vilji vera áfram hjá félaginu. Samningur Salah við Liverpool rennur út eftir tímabilið 2023 en hingað til hafa viðræður um nýjan samning ekki borið árangur.

Salah sagði í viðtali við GC-Magazine að boltinn væri í höndunum á forráðamönnum Liverpool, þeir vissu hvað hann vildi og að hann væri ekki að biðja um ,,brjálæðislega hluti."

,,Ég veit að Salah vill vera áfram og við viljum að hann verði áfram. Þessir hlutir taka tíma en ég tel að við séum á góðum stað í augnablikinu, ég er jákvæður gagnvart þessu. Stuðningsmenn Liverpool eru ekki jafn stressaðir yfir þessu eins og fjölmiðlar," sagði Jurgen Klopp á blaðamannafundi í dag.

Hann segir stuðningsmenn Liverpool ekki þurfa að hafa áhyggjur. Hann er með samning út þessa og næstu leiktíð, það er staðan en það er allt í góðu. Hann er heimsklassa leikmaður sem hefur gert frábæra hluti fyrir Liverpool og við viljum halda honum."

Salah verður 30 ára í sumar og er á toppi síns knattspyrnuferils í augnablikinu. ,,Hann er mikill karakter, vinnusemi hans er afburðargóð. Hann er fyrstur á æfingu og fer síðastur og gerir alla hluti rétt. Hann þekkir líkama sinn, hlustar á sérfræðinga og reynir að bæta sig á hverjum degi. Það hefur skilað honum á þennan stað og hann mun ekki vilja eiga hættu á því að missa það frá sér með því að slaka á," sagði Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool um Mohamed Salah.