Stuðningsmenn danska úrvalsdeildarliðsins AGF, sem Íslendingarnir Jón Dagur Þorsteinsson og Mikael Neville Anderson leika með, hafa fengið nóg af stöðu félagsins og boða til hljóðlátra mótmæla á meðan að lokaleik liðsins á tímabilinu stendur.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá stuðningsmannahópi félagsins Samlet for Aarhus. AGF var í harðri fallbaráttu undir lok tímabilsins en nú er sæti liðsins í deild þeirra bestu tryggt. Þá hafa vandræði utan vallar, meðal annars í kringum mál Jóns Dags Þorsteinssonar, ollið úlfúð.
,,Tímabilið hefur verið hrein hörmung og AGF lang lélegasta lið deildarinnar. Þrátt fyrir brösótt gengi hefur liðið fengið stuðning víðs vegar um landið þar sem við höfum lagt allt í sölurnar til þess að koma okkur úr þessu ástandi,“ segir í tilkynningu frá Samlet for Aarhus.
Stuðningsmannahópurinn segir að nú, þegar sæti AGF í dönsku úrvalsdeildinni er tryggt, verði gripið til frekari aðgerða.
,,Þar sem að úrslitin í leiknum sjálfum skipta ekki neinu máli munum við láta í ljós óánægju okkar með því að horfa á leikinn sitjandi í sætum okkar, án söngs og annarra stemmningsskapandi athafna. Það sem að við höfum orðið vitni að undanfarna mánuði hefur ekki verið félaginu, styrktaraðila, borginni eða merkinu til sóma og okkur finnst það skylda okkar að krefjast breytinga.“
Stuðningsmannahópurinn segir það ekki síður vera hollustu við félagið að láta í sér heyra þegar að fulltrúar félagsins taka ákvarðanir sem ekki er sómi af fyrir AGF.