Stuðnings­menn danska úr­vals­deildar­liðsins AGF, sem Ís­lendingarnir Jón Dagur Þor­steins­son og Mikael N­evil­le Ander­son leika með, hafa fengið nóg af stöðu fé­lagsins og boða til hljóð­látra mót­mæla á meðan að loka­leik liðsins á tíma­bilinu stendur.

Þetta kemur fram í til­kynningu frá stuðnings­manna­hópi fé­lagsins Sam­let for Aarhus. AGF var í harðri fall­bar­áttu undir lok tíma­bilsins en nú er sæti liðsins í deild þeirra bestu tryggt. Þá hafa vand­ræði utan vallar, meðal annars í kringum mál Jóns Dags Þor­steins­sonar, ollið úlf­úð.

,,Tíma­bilið hefur verið hrein hörmung og AGF lang lé­legasta lið deildarinnar. Þrátt fyrir brös­ótt gengi hefur liðið fengið stuðning víðs vegar um landið þar sem við höfum lagt allt í sölurnar til þess að koma okkur úr þessu á­standi,“ segir í til­kynningu frá Sam­let for Aarhus.

Stuðnings­manna­hópurinn segir að nú, þegar sæti AGF í dönsku úr­vals­deildinni er tryggt, verði gripið til frekari að­gerða.

,,Þar sem að úr­slitin í leiknum sjálfum skipta ekki neinu máli munum við láta í ljós ó­á­nægju okkar með því að horfa á leikinn sitjandi í sætum okkar, án söngs og annarra stemmnings­skapandi at­hafna. Það sem að við höfum orðið vitni að undan­farna mánuði hefur ekki verið fé­laginu, styrktar­aðila, borginni eða merkinu til sóma og okkur finnst það skylda okkar að krefjast breytinga.“

Stuðnings­manna­hópurinn segir það ekki síður vera hollustu við fé­lagið að láta í sér heyra þegar að full­trúar fé­lagsins taka á­kvarðanir sem ekki er sómi af fyrir AGF.