Á fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ þann 30. ágúst 2022, var tekin fyrir skýrsla frá eftirlitsmanni KSÍ á leik HK og Breiðabliks í Bikarkeppni KSÍ þann 19. ágúst. Eftirlitsmaðurinn varpaði þar ljósti á hegðun ákveðinna stuðningsmanna HK sem létu vítaverð orð falla í garð eins af leikmönnum Breiðabliks.

Það var álit nefndarinnar að framkoma áhorfenda HK í garð leikmanns Breiðabliks hafi verið vítaverð og félli undir ákvæði 12.9.d) í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál.

Á þeim grundvelli ákvað aga- og úrskurðarnefnd KSÍ að sekta Knattspyrnudeild HK. Með tilliti til viðbragða og ráðstafana knattspyrnudeildar HK vegna þeirra atburða sem lýst er í skýrslu eftirlitsmanns, var upphæð sektar knattspyrnudeildar HK hæfilega ákveðin kr. 100.000.

Vefsíðan Fótbolti.net greindi frá því á meðan að leikur HK og Breiðabliks stóð yfir að stuðningsmenn HK væru að syngja níðsöngva um Damir Muminovic, varnarmann Breiðabliks. Þeir hafi sungið um hann og kallað hann enska orðinu pedo sem er slanguryrði úr ensku yfir barnaníðinga.