Árásin átti sér stað eftir leik liðanna og samkvæmt vefmiðlinum HLN í Belgíu var Guido, sem er stuðningsmaður Manchester City á leið heim til sín þegar að nokkrir stuðningsmenn Club Brugge komu auga á bláan Manchester City trefil sem hann bar á sér og réðust að honum. Þeir tóku af honum trefilinn réðust á hann.

Fimm menn eru nú í haldi lögreglu og hafa verið ákærðir. Saksóknari í Belgíu staðfestir í tilkynningu til fjölmiðla að Guido sé í dái en í stöðugu ástandi.

Guido er félagsmaður í stuðningsmannaklúbbi Manchester City í Belgíu sem ber nafnið Blue Moon Belgium. Sonur hans, Jurgen, er varaformaður í klúbbnum og hann tjáði sig við HLN eftir árásina. ,,Eftir leikinn stoppuðum við á bílastæði við E40 veginn í Drongen. Ég og félagar mínir lögðum af stað en pabbi var enn að bíða eftir vinum sínum. Þar nálgaðist hann stuðningsmaður Club Brugge sem tók af honum trefilinn. Þegar pabbi bað hann um að skila honum var hann sleginn í höfuðið," sagði Jurgen, sonur Guido sem ráðist var á.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, sýndi Guido stuðning á blaðamannafundi í dag en hann klæddist bol með áletruninni: Við erum með þér Guido.

Pep Guardiola á blaðamannafundi í dag / Mynd: Manchester City