Toto Wolff, liðsstjóri Mercedes í Formúlu 1 segist hafa stúderað fyrrum meistaralið í íþróttaheiminum og afhverju þau náðu ekki að halda meistaragöngu sinni áfram til þess að gera ekki sömu mistök hjá Mercedes sem hefur unnið 8 heimsmeistaratitla í röð í keppni bílasmiða.

Frá þessu greindi Wolff í viðtali við Financial Times og tók sem dæmi Manchester United þegar að stjórnartíð Sir Alex Fergusonar, knattspyrnustjórans sigursæla tók enda hjá félaginu.

Undir stjórn Sir Alex Ferguson vann Manchester United í tvígang ensku úrvalsdeildina þrisvar sinnum í röð en félaginu hefur ekki tekist að vinna deildina eftir brotthvarf Skotans.

Wolff segir að stúdering sín á öðrum meistaraliðum hafi leitt það í ljós að á endanum urðu þau kærulaus. Auk þess hafi vantað kraft og metnað í þau.

,,Ekkert annað lið í íþrótttum hefur unnið 8 risatitla í röð og það eru margar ástæður fyrir því og það tengist kjarna mannlegs eðlis. Manneskjan verður kærulaus. Þú ert ekki með sama kraft og áður og ert kannski ekki jafn metnaðarfullur," segir Wolff í samtali við Financial Times.