Kjartan Henry Finnbogason tryggði sér sæti í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í vikunni. Kjartan Henry hefur skoraði 17 mörk í dönsku B-deildinni á yfirstandandi leiktíð sem hefur verið óvenjulöng. Þá hefur ýmislegt gengið á hjá Kjartani Henry, bæði í persónulega lífinu, sem og inni á knattspyrnuvellinum.

„Það er mikill léttir að þetta sé í höfn eftir þetta langa og viðburðaríka keppnistímabil sem hefur tekið 14 mánuði. Þetta hefur verið mjög erfitt tímabil, en um leið er það kærkomið að endirinn sé ánægjulegur,“ segir Kjartan Henry í samtali við Fréttablaðið.

„Þegar ég kom til Vejle þá var liðið í vondri stöðu og ég ákvað að taka þá áskorun að freista þess að bjarga liðinu frá falli. Mér líður vel í Danmörku og boltinn hérna hentar mér vel. Það tókst hins vegar því miður ekki að bjarga því sem bjarga varð og af þeim sökum er það einstaklega ljúft að vera búinn að endurheimta sæti í deild þeirra bestu, þar sem félagið á heima.

Það var tekin ákvörðun um það innan félagsins þegar liðið féll, að það yrði haldið í lungann úr leikmannahópnum og í raun bara spýtt í lófana hvað gæði hópsins og umgjörð í kringum liðið varðar. Nú hefur staða liðsins verið leiðrétt sem er vel. Ég á ár eftir af samningi mínum hér og stefni á að spila hér út þann samning með liðinu,“ segir framherjinn enn fremur.

Gengið í gegnum erfiða tíma

„Þetta tímabil hefur tekið 14 mánuði og á þeim tíma hafa erfiðir hlutir gengið á í mínu persónulega lífi. Ég missti bróður minn [Hallgrím Þormarsson] skyndilega í haust, sem var mikið áfall. Svo skellur þessi blessaða kórónaveira á og það verður til þess að fjölskyldan mín var föst heima og ég var einn hérna í Vejle í nokkra mánuði,“ segir Kjartan um síðustu misseri.

„Aðstæðurnar voru svolítið skrýtnar þegar við fórum upp vegna þeirrar takmörkunar sem er enn á áhorfendafjöldanum á leikjunum hér í Danmörku vegna veirunnar. Vanalega eru um það bil 12.000 manns á vellinum og góð stemming á leikjunum. Í stað þess að völlurinn væri fullur, eins og hefði verið í venjulegu árferði, þá tóku stuðningsmenn liðsins á móti okkur fyrir utan völlinn okkar með blysför og hylltu okkur. Það var mjög gaman,“ segir Vesturbæingurinn.

„Nú hefur markmiði liðsins verið náð og þá á ég bara eftir að ná þeim markmiðum sem ég setti fyrir sjálfan mig í upphafi tímabilsins. Ég skoraði 17 mörk í þessari deild þegar ég spilaði með Horsens og stefnan var að gera betur að þessu sinni. Svo er ég bara þannig gerður að ég vil standa uppi sem markahæsti leikmaðurinn í þeirri deild sem ég spila auk þess að sjá til þess að liðinu gangi vel,“ segir markahrókurinn.